spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaUmfjöllun, myndir og viðtöl: Shabazz sjóðheitur þegar Ljónin skelltu meisturum Vals

Umfjöllun, myndir og viðtöl: Shabazz sjóðheitur þegar Ljónin skelltu meisturum Vals

Njarðvík skellti Íslandsmeisturum Vals í Bónusdeild karla í kvöld. Heimamenn við stýrið í IceMar-Höllinni frá upphafi til enda. Lokatölur 101-94. Valsmenn gerðu heiðarlega atlögu að því að koma sér inn í leikinn en það reyndist of lítið og of seint. Kahlil Shabazz er að stimpla sig inn sem einn allra besti leikmaður deildarinnar en hann splæsti í 37 stig, 7 fráköst og 7 stoðsendingar í kvöld fyrir heimamenn í Njarðvík. Kristinn Pálsson var atkvæðamestur í liði Valsmanna með 24 stig, 5 fráköst og 6 stoðsendingar.

Stattnördarnir fyrir leik

Njarðvík og Valur hafa mæst 48 sinnum í efstu deild á heimavelli Njarðvíkur, fyrsta skiptið var 1971 en þá spiluðu liðin í Krossinum í Njarðvík og árið eftir var spilað á Seltjarnarnesi. Síðan þá hefur verið spilað í Ljónagryfjunni en nú munu liðin mætast í IceMar höllinni. Njarðvík hefur unnið 36 af þessum leikjum en Valur 12.

Hnjaskvagninn er fjölskipaður hjá báðum liðum þessi dægrin en í kvöld léku Njarðvíkingar án Dwayne Lautier-Ogunleye og enn er nokkuð í Maciej Baginski. Þá eins og flestum er kunnugt er Kristófer Acox enn fjarri góðu gamni og þá var Ástþór Atli Svalason á bekknum í borgaralegum klæðum í kvöld.

Gangur leiks

Þó sterkir leikmenn beggja liða hafi verið með vottorð í leikfimi þá vantaði ekki neinn til að stíga upp. Fyrstur á svið Kahlil Shabazz með funheita höndina og heimamenn leiddu 27-20 eftir fyrsta leikhluta. Milka var næstur með heita hönd, 3 af 3 í þristum lágu niðri hjá stóra manninum og allt í fullu fjöri hjá Njarðvíkingum sem leiddu 55-33 í hálfleik.

Gestirnir af Hlíðarenda komu mun beittari inn í síðari hálfleikinn. Vart annað hægt enda nánast hluti af áhorfendum fyrstu 20 mínútur leiksins. Valur vann þriðja 25-28 og staðan því 80-61 fyrir Njarðvík og 10 mínútur til stefnu. Hin stóíska ró og kænska meistaranna fær um að bjarga liðinu inn í leikinn á ný?

Eftir þriggja mínútna leik í fjórða náði valur að minnka muninn í 84-71 og koma honum niður í tíu stig en skaðinn virtist þegar skeður. Njarðvíkingar hleyptu þeim ekki nær en 10 stig og gerðu vel að landa sigrinum.

Atkvæðamestir

Shabazz var maður vallarins eins og áður greinir með 37 stig og Milka græjaði tröllatvennu með 26 stig og 17 fráköst. Kristinn Pálsson gerði 24 stig hjá Val og Badmus 23.

Hvað svo?

Næsti leikur Njarðvíkinga er 8. nóvember á útivelli gegn KR en Valsmenn fá Hött í heimsókn sama dag.

Tölfræði leiks

Myndasafn (Gunnar Jónatansson)

Fréttir
- Auglýsing -