spot_img
HomeBónus deildinBónus deild kvennaLögðu Íslandsmeistarana með minnsta mun mögulegum

Lögðu Íslandsmeistarana með minnsta mun mögulegum

Grindavík hafði betur gegn Keflavík í Smáranum í kvöld í 5. umferð Bónus deildar kvenna, 68-67. Eftir leikinn eru liðin jöfn að stigum með þrjá sigra og tvö töp það sem af er í 1. til 4. sæti deildarinnar.

Eins og tölurnar gefa til kynna var leikur kvöldsins nokkuð jafn og spennandi. Lengst af var það þó Grindavík sem leiddi, en munurinn var þó ekki mikill. Grindavík var 5 stigum yfir í hálfleik og 3 stigum fyrir lokaleikhlutann. Undir lokin var það karfa Alexis Morris þegar um fimm sekúndur voru eftir sem vann leikinn fyrir Grindavík, en tilraunir Keflavíkur til þess að stela sigrinum á lokasekúndunum báru ekki árangur.

Atkvæðamestar í liði heimakvenna í leiknum voru Alexis Morris með 33 stig, 8 fráköst, 5 stoðsendingar og Isabella Ósk Sigurðardóttir með 4 stig, 9 fráköst og 4 stoðsendingar.

Fyrir Keflavík var Jasmine Dickey atkvæðamest með 27 stig og 11 fráköst. Henni næst var Anna Lára Vignisdóttir með 15 stig og 5 fráköst.

Bónus deildin er nú komin í landsleikjahlé, en næstu leikir liðanna eru þann 16. nóvember. Þá heimsækja Íslandsmeistarar Keflavíkur nýliða Hamars/Þórs í Þorlákshöfn og Grindavík fær nýliða Tindastóls í heimsókn í Smárann.

Tölfræði leiks

Viðtöl upphaflega birt á vef Víkurfrétta

Fréttir
- Auglýsing -