spot_img
HomeBónus deildinBónus deild kvennaUmfjöllun & viðtöl: Hana hetja Hamars/Þórs í spennuleik í Ásgarði

Umfjöllun & viðtöl: Hana hetja Hamars/Þórs í spennuleik í Ásgarði

Hamar/Þór hafði betur gegn Stjörnunni í Ásgarði í kvöld í 5. umferð Bónus deildar kvenna, 82-84.

Fyrir leik

Fyrir leik kvöldsins voru liðin á svipuðum stað í töflu deildarinnar. Hvort um sig með tvo sigra og tvö töp það sem af er og í 3.-8. sætinu. Í síðustu umferð hafði Stjarnan lagt nýliða Aþenu með 6 stigum í Austurbergi á meðan að Hamar/Þór þurfti að þola 46 stiga tap gegn Grindavík heima í Hveragerði.

Gangur leiks

Heimakonur í Stjörnunni hófu leik kvöldsins betur og náðu mest 8 stiga forystu á upphafsmínútunum. Hamar/Þór náðu þó að vinna það niður og komast yfir fyrir lok þess fyrsta, en staðan eftir fjórðunginn var 20-23 þeim í vil. Áfram nær Hamar/þór svo að vera skrefinu á undan undir lok fyrri hálfleiksins og þegar liðin halda til búningsherbergja er staðan 39-47.

Stigahæst fyrir Stjörnuna í fyrri hálfleiknum var Kolbrún María Ármannsdóttir með 13 stig á meðan Abby Beeman var komin með 16 stig fyrir Hamar/Þór.

Áfram er Hamar/Þór í bílstjórasætinu í upphafi seinni hálfleiksins og fara þær mest með forystu sína í 14 stig. Heimakonur ná þó að hlaða í snöggt áhlaup undir lok þriðja fjórðungs og halda þessu í leik inn í lokaleikhlutann, 61-69. Um miðbygg fjórða leikhlutans kemur svo annað áhlaup frá heimakonum og er munurinn aðeins 5 stig þegar tæpar fjórar mínútur eru til leiksloka. Leikurinn helst svo jafn inn í lokamínútuna og með vítaskoti frá Diljá Ögn Lárusdóttur nær Stjarnan að minnka muninn í 3 stig þegar tæpar 40 sekúndur eru eftir, 79-82. Stjarnan nær svo að lokum að jafna leikinn með þrist frá Kolbrúnu Maríu þegar um 5 sekúndur eru til leiksloka, 82-82. Á lokasekúndunum er Hana Ivanusa svo hetja Hamars/Þórs, nær að brjótast í gegn og setja boltann niður ásamt villu. Niðurstaðan að lokum tveggja stiga sigur Hamars/Þórs, 82-84.

Kjarninn

Þó að vissulega hafi leikmaður Hamars/Þórs Abby Beeman í einhver skipti sett fleiri stig á töfluna heldur en hún gerði í kvöld er óhætt að segja að Stjarnan hafi lítið ráðið við hana í leiknum. Bæði tók hún af skarið sjálf sóknarlega, sem og var hún dugleg að deila boltanum með liðsfélögum sínum þegar það þurfti. Að sama skapi má segja að lykilleikmenn Stjörnunnar hafi átt frekar erfiðan dag. Nokkrar með fleiri skot heldur en stig skoruð, en slíkt kann ekki góðri lukku að stýra.

Atkvæðamestar

Atkvæðamest í liði Stjörnunnar í kvöld var Denia Davis Stewart með 26 stig og 21 fráköst. Henni næst var Kolbrún María Ármannsdóttir með 26 stig og 6 stoðsendingar.

Fyrir Hamar/Þór var Abby Beeman atkvæðamest með 28 stig, 12 fráköst, 5 stoðsendingar og 6 stolna bolta. Þá bætti Hana Ivanusa við 20 stigum og 9 fráköstum.

Hvað svo?

Bæði lið eiga leik næst í deildinni þann 16. nóvember, en þá tekur Stjarnan á móti Njarðvík í Ásgarði og Hamar/Þór mæta Íslandsmeisturum Keflavíkur í Þorlákshöfn.

Tölfræði leiks

Myndasafn (væntanlegt)

Fréttir
- Auglýsing -