spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaGarðabæjargrýla í Vesturbænum?

Garðabæjargrýla í Vesturbænum?

Vesturbæjarstórveldið er ekki fyrr mætt aftur upp í deild þeirra bestu en það byrjar að hrekkja blásaklaus körfuboltalið út á landi með því að soga til sín 2 stig frá vesalings bæjarfélögunum. Álftanes er hins vegar tæplega út á landi og var þar að auki gestur í Vesturbænum í kvöld í 4. umferð Bónusdeildarinnar. Tekst KR-ingum að halda stigunum tveimur útaf fyrir sig frá sveltandi álftum?

Þvílík hörmungar byrjun á tímabilinu hjá Álftnesingum. Ekkert lið hefur spilað jafn margar mínútur í vetur, samt hafa engin stig ratað í pokann enn og álagsmeiðsli strax farin að gera vart við sig! En er ekki bara fínt að hefja stigasöfnunina á heimavelli nýliðanna? Stjörnumenn hafa nú þegar gefið sambæingum sínum gott fordæmi, ekki satt Kúla góð?

Kúlan: Kúlan er að detta í gírinn og gerist nú dulúðleg og myndræn. Helgi Magg, Pavel, Jakob og Matti birtast í þokufylltri Kúlunni. Þeir stinga saman nefjum og líkamstjáning þeirra félaga er leyndardómsfull en jafnframt má greina keim af eftirvæntingu og jákvæðni í loftinu. Þetta þýðir að KR-ingar munu nýta tækifærið til að koma á óvart í vetur (sem hefur ekki verið í boði fyrir KR-inga í háa herrans tíð), og liður í því verður öruggur 89-79 sigur í kvöld.

Byrjunarlið

KR: Linards, Granic, Þorri, Tóti, Nimrod

Álftanes: Okeke, Haukur, Klonaras, Hössi, Jones

Gangur leiksins

Sársvangir gestirnir byrjuðu betur í kvöld, Haukur og Okeke voru mest áberandi og þeir röðuðu stigum á töfluna. Rétt fyrir miðjan fyrsta leikhluta fékk Jakob nóg og tók leikhlé í stöðunni 8-17 og bað sennilega sína menn um að byrja ekki seinna en strax að spila smá varnarleik! Talsvert hægðist á stigaskori gestanna það sem eftir lifði leikhlutans en þó leiddu Álftnesingar 17-24 eftir einn.

Gestirnir héldu áfram að leiða í öðrum leikhluta lengi vel með rétt um 10 stigum og þegar 3 mínútur voru til hálfleiks stóðu leikar 30-40. Þorri leiddi þá sína menn til áhlaups, smellti smekklegum þristi niður, stal boltanum einhverjum sekúndum síðar, bætti við tveimur stigum og minnkaði muninn í 38-40. Hreinræktað KR-áhlaup var þetta því Tóti tók þá við keflinu og kom sínum mönnum í fyrsta sinn yfir í leiknum með þristi, 41-40. Rúm mínúta var þá til pásunnar, Kjarri tók leikhlé sem skilaði 3 stigum í pokann fyrir Álftanes og leikar stóðu 41-43 í hálfleik. Álftnesingar voru með 0% þriggja stiga skotnýtingu í hálfleik, 50% í vítum en samt yfir! Á móti höfðu heimamenn ekki nýtt 2 stiga skot sín neitt alltof vel.

Gestirnir hófu þriðja leikhluta líkt og þann fyrsta og héldu sæti sínu við stýrið. Álftnesingar héldu áfram að koma sér að körfunni og Jones slysaðist meira að segja til þess að setja niður fyrsta þrist sinna manna um miðjan leikhlutann! Munurinn varð þó aldrei meira en 10 stig og enn og aftur svöruðu heimamenn fyrir sig. Tóti var langbestur KR-inga í kvöld, smellti niður tveimur þristum í röð, endurtók leikinn frá því í öðrum leikhluta og kom röndóttum aftur yfir í stöðunni 61-60. Gestirnir létu það ekkert taka sig á taugum og voru enn yfir fyrir lokafjórðunginn 63-64.

Það var eins og að sveiflan í leiknum hafi verið ótrúlega fyrirsjáanleg því enn og aftur tókst gestunum að stíga á bensíngjöfina og kippa sér lítið eitt frá KR-ingum. Jakob tók leikhlé snemma í leikhlutanum sem hafði jákvæð áhrif og um miðjan leikhlutann stóðu leikar 68-71 og hælarnir á gestunum vafalaust  orðnir nagaðir og aumir á þessum tímapunkti! Þegar 3:30 voru eftir að leiknum höfðu Álftnesingar bætt nokkrum stigum við forskotið, staðan 70-78 og allt opið ennþá. Við tóku hátt í þrjár stigalausar mínútur, ekkert vildi niður og varnarleikur beggja liða sömu leiðis með ágætum. KR-ingar brutu ísinn þegar 40 sekúndur voru eftir og minnkuðu muninn í 72-78 en hörmungin á móti Val endurtók sig ekki hjá gestunum sem settu síðustu 6 stig leiksins. Lokatölur urðu 72-84 í mikilvægum fyrsta sigri gestanna á tímabilinu.

Menn leiksins

Erfitt er að tína einhvern einn út úr sigurliðinu eftir leikinn. Byrjunarliðið setti allt 16-20 stig á mann fyrir utan Hössa, en hann var hins vegar með 7 fráköst og 10 stoðsendingar! Flottur liðssigur hjá Álftnesingum í kvöld.

Þórir Guðmundur, betur þekktur sem Tóti Túrbó, stóð vel upp úr KR-hópnum í kvöld. Hann var stigahæstur með 21 stig, tók 6 fráköst og gaf 7 stoðsendingar. Frábær frammistaða.

Kjarninn

Kjartan Atli gat ekki annað en viðurkennt að sigurinn í kvöld hafi verið kærkominn í viðtali við Körfuna eftir leik. Þrátt fyrir ágæta frammistöðu í fyrstu þremur leikjunum voru engin stig komin í hús og leikurinn snýst jú um það að hala inn stigum. En kannski má segja að Álftnesingar höfðu einfaldlega tapað hlutkestinu þrisvar í röð í byrjun móts, lögmál meðaltalsins mun væntanlega leiðrétta það í næstu umferðum svo menn geta verið alveg rólegir í Garðabænum.

Það hefur verið jákvæð ára yfir nýliðunum í upphafi móts. KR-ingar hirtu stigin á Króknum og í Þorlákshöfn, töpuðu svo með minnsta mun á móti Stjörnunni á heimavelli. Ekki kom fyrsti heimasigurinn í kvöld en hann kemur örugglega fljótlega. Vesturbæingar geta líka verið alveg salí – aldrei slíku vant er engin pressa á Vesturbæjarstórveldinu.

Athygliverðir punktar:

  • Það var fullt hús í Vesturbænum í kvöld! Frábærir stuðningsmenn sem KR eiga og sömuleiðis var vel mætt af Álftanesinu.
  • Woke-útgáfan af KR-laginu heyrðist ekki í kvöld. Takk fyrir það kærlega!

Tölfræði leiks

Myndasafn (Bára Dröfn)

Fréttir
- Auglýsing -