spot_img
HomeBónus deildinBónus deild kvennaBaráttusigur Þórs í Höllinni

Baráttusigur Þórs í Höllinni

Það var alveg ljóst frá upphafi leiks að Þórsstúlkur ætluðu sér að selja sig dýrt þegar liðið tók á móti Grindavík í  3.umferð Bónus-deildarinnar. Naumt tap í tveimur fyrstu  útileikjunum sveið og allt gert til að komast á beinu brautina. Þórsarar byrjuðu leikinn af krafti og voru komnar í 8:2 eftir tæpar tvær mínútur gestirnir ekki sannfærandi  í upphafi leiks. En þær hristu af sér slenið og jöfnuðu 8:8 og næstu mínúturnar skiptust liðin á að leiða en í stöðunni 13:12 skiptu gestirnir um gír og komust í 16:21 þegar mínúta lifði leikhlutans. Grindavík vann leikhlutann með 2 stigum 19:21.

Þórsarar komu ákveðnar til leiks í öðrum leikhluta og Eva Wium jafnaði í 21:21 og  eftir tveggja og hálfs mínútna leik hafði Þór sex stiga forskot 27:21. Það sem eftir lifði leikhlutans leiddi Þór leikinn og náði mest 7 stiga forskoti 44:37. Þór vann leikhlutann með 7 stigum og staðan í hálfleik 46:41. Atkvæðamestar í hálfleik í liði Þórs voru Amandine með 13 stig Eva Wium 12 og Madison Sutton með 10.

Hjá Grindavík var Alexis Morris allt í öllu og var komin með 25 stig og næst henni var Katarzyna Anna með 7 stig.

Madison skoraði fyrstu stig síðari hálfleik 48:41 og voru nú komnar með góð tök á leiknum og juku forskotið hægt og bítandi og höfðu mest 14 stiga forskot 57:43 um miðbik þriðja leikhluta. Þarna var farið að bera á pirringi meðal gestanna sem ekki var til að hjálpa þeim, síður en svo. Þórsstúlkur börðust um hvern einasta bolta og hleyptu gestunum ekki of nálægt sér og unnu leikhlutann með 5 stigum og höfðu 10 stiga forskot þegar fjórði og síðasti leikhlutinn hófst 65:55.

Loka leikhlutinn var ekki 15 sekúndna gamall þegar Hrefna setti niður þrist og ekki löngu síðar setti Hrefna niður annan þrist og staðan orðin 71:55. Litlu síðar bætti Esther Fokke einum þrist í safnið og Þór komin með 19 stiga forskot 74:55 og þrjár mínútur búnar af leikhlutanum. Þarna var í raun ljóst hvert stefndi og heimakonur slökuðu á en áfram virtist eitt og annað pirra gestina, sem fyrr var ekki til að hjálpa. Um miðbik loka leikhlutans var munurinn 13 stig 76:63. Það sem eftir lifði leikhlutans lét Þór sér duga að skora 5 stig á móti 8 stigum gestanna. Hvort lið um sig skoraði 16 stig í leikhlutanum og Þórsstúlkur lönduðu 10 stiga öruggum sigri 81:71.

Þórsliðið gerði vel í kvöld og allir leikmenn liðsins börðust og lögðu allt í sölurnar þrátt fyrir þunnskipaðan leikhóp eða 9 leikmenn, á meðan Grindavík hafði úr 12 leikmönnum að velja.

Stigahæst í liði Þórs var Amandine Toi með 27 stig 6 fráköst og eina stoðsendingu. Eva Wium var með 14 stig 5 fráköst og 2 stoðendingar. Hrefna var með 12 stig líkt og Madison sem að auki tók 14 fráköst og var með 9 stoðsendingar. Esther Fokke var með 12 stig og Emma Karólína 4.

Hjá Grindavík var eins og áður segir Alexis Morris algerlega óstöðvandi hún skoraði körfur í öllum regnbogans litum og þegar hún vildi. Alexis var með 35 eða nærri helming stiga liðsins. Næst kom Katarzyna Anna með 13 stig 5 fráköst og eina stoðsendingu. Ólöf Rún var með 9 stig og Sofie Tryggedsson Preetzmann með 8 stig, Hulda Björk 4 stig og Sóllilja með 2.

Gangur leiks eftir leikhlutum: 19:21/27:20 (46:41) 19:14 / 16:16 = 81:71

Tölfræði leiks

Staðan í deildinni

Myndasafn

Umfjöllun, myndir / Palli Jóh

Fréttir
- Auglýsing -