Ármann lék í kvöld gegn ÍR í Skógarseli í Breiðholti. Þessi lið hafa oft mæst í hörkuleikjum á síðustu árum en fyrir leik mátti samt búast við að Ármann yrði sterkari aðilinn. Lið ÍR átti erfitt tímabil í fyrra í fyrstu deildinni en hafa bætt sig í sumar og koma reynslunni ríkari til leiks að þessu sinni. Þær sýndu í þessum leik að þær hafa bætt sig og eru á réttri leið í sinni vegferð. Það var þó greinilegur munur á liðunum í þessum leik. Lið Ármanns er sterkt varnarlega og með góða breidd sem hjálpaði þeim framan af í leiknum þegar skotin voru ekki að detta ofan í.
Þegar leið á leikinn fóru skotin að falla fyrir Ármann og munurinn jókst jafnt og þétt. Leikurinn opnaðist töluvert í seinni hálfleik þegar skotin fóru að falla hjá Ármanni sem opnaði á auðveldari skot undir körfunni. ÍR stelpurnar börðust þó vel allan leikinn og settu flottar körfur þrátt fyrir sterka vörn Ármanns.
Leikurinn var þó aldrei í hættur fyrir Ármann og lokatölur voru 50-83
Jónína Þórdís Karlsdóttir var sem fyrr mjög öflug í liði Ármanns. Hún endaði leik með 16 stig, 10 fráköst, 7 stoðendingar og 7 stolna bolta.
Aníka Linda Hjálmarsdóttir hitti vel fyrir Ármann og skoraði 15 stig.
Hjá ÍR var Heiða Sól öflug með 11 stig og 6 fiskaðar villur.
Ármann kynnti til leiks í fyrsta sinn Alarie Mayze sem er bandarískur leikmaður sem mun spila með liðinu í vetur og þjálfa yngri flokka líka. Hún er nýkomin til landsins og hefur aðeins náð nokkrum æfingum með liðinu. Það sást á henni í byrjun en þegar leið á leikinn fór hún að finna taktinn betur og skilaði að lokum 11 stigum og 11 fráköstum. Alarie er öflugur varnamaður sem getur líka skapað í sókninni og það verður spennandi að fylgjast með henni í næstu leikjum liðsins.