KV hafði betur gegn Fjölni í kvöld í 2. umferð fyrstu deildar karla. KV hefur því tapað einum leik og unnið einn á meðan að Fjölnir hefur tapað báðum sínum leikjum.
Heimamenn í KV lengst af í leik kvöldsins. Voru átta stigum yfir eftir fyrsta leikhluta, 28-20, og þeirri forystu héldu þeir svo til búningsherbergja í hálfleik, 55-47. Fjölnir nær ágætis áhlaupi, sínum besta kafla í upphafi seinni hálfleiksins og er leikurinn jafn fyrir lokaleikhlutann. Í þeim fjórða gerir KV þó nóg til að sigla aftur framúr og vinna að lokum nokkuð verðskuldaðan sigur, 88-79.
Liðunum tveimur hafði verið spáð nokkuð ólíku gengi fyrir tímabil, þar sem KV var spáð í lang neðsta sætinu á meðan að Fjölnir átti að vera berjast um toppsætið. Með leik kvöldsins sem dæmi væri þó hægt að færa rök fyrir að KV hefðu átt að vera öllu ofar í þeim útreikningum og þó Fjölnir eigi líklega eftir að ná vopnum sínum, er það deginum ljósara að þeir þurfa að mæta betur til leiks en þeir hafa gert í fyrstu tveimur umferðunum ef ekki á illa að fara.
Atkvæðamestur í liði KV í kvöld var Friðrik Anton Jónsson með 18 stig, 14 fráköst og 5 stoðsendingar. Honum næstir voru Arnór Hermannsson með 20 stig, 4 fráköst, 7 stoðsendingar og Lars Erik Bragason með 18 stig og 6 fráköst.
Fyrir Fjölni var Alston Harris atkvæðamestur með 26 stig, 4 fráköst og 9 stoðsendingar og Lewis Diankulu bætti við 16 stigum og 5 fráköstum.
KV á leik næst þann 16. október gegn Ármann í Laugardalshöllinni, en Fjölnir mætir Breiðablik í Dalhúsum næst þann 18. október.