spot_img
HomeBónus deildinBónus deild kvennaHaukar sterkari á lokasprettinum í Ólafssal

Haukar sterkari á lokasprettinum í Ólafssal

Haukar lögðu Aþenu í kvöld í annarri umferð Bónus deildar kvenna, 91-76. Eftir leikinn eru Haukar því með tvo sigra á meðan að Aþena hefur unnið einn leik og tapað einum.

Haukar komu inn í leikinn eftir sigur á nýliðum Hamars/Þórs þar sem Lore Davos átti stórleik og skoraði meira en helming stiga Hauka og vannst sá leikur á ferskari fótum í fjórða leikhluta. Aþena vann einnig sinn fyrsta leik og voru það íslensku stelpurnar sem skiluðu 65 af 86 stigum liðsins, en eins og í leiknum hjá Haukum réðu ferskari fætur í fjórða leikhluta úrslitum. Það mátti því búast við hörkuleik í Ólafssal í kvöld þar sem fyrir leik var ljóst að það lið sem ynni yrði á toppnum eftir aðra umferð.

Það voru heimakonur í Haukum sem hófu leikinn af miklu krafti og leiddu þær með 14 stigum eftir fyrsta leikhluta, 25-11. Aþena nær í framhaldi áttum og ná að minnka muninn fyrir lok fyrri hálfleiksins, 44-35.

Leikurinn helst svo í nokkru jafnvægi í upphafi seinni hálfleiksins, en áfram eru það heimakonur sem leiða fyrir lokaleikhlutann, 62-51. Á lokamínútunum nær Aþena að veita Haukum verðuga keppni og komast þær í tvígang yfir í fjórða leikhlutanum. Undir lokin er Haukaliðið þó sterkt, nær aftur að skapa bil milli sín og gestana og vinna leikinn að lokum nokkuð örugglega, 91-76.

Atkæðamestar í lið Hauka í kvöld voru Tinna Guðrún Alexandersdóttir með 24 stig, 6 fráköst, 5 stoðsendingar og Lore Devos með 21 stig, 6 fráköst og 4 stoðsendingar.

Fyrir Aþenu var það Ajulu Obur Thatha sem dró vagninn með 21 stigi og 14 fráköstum. Henni næst var Dzana Crnac með 17 stig og 3 fráköst.

Haukar eiga leik næst komandi þriðjudag 15. október gegn Stjörnunni í Ásgarði. Aþena á leik degi seinna miðvikudag 16. október gegn nýliðum Hamars/Þórs í Austurbergi.

Tölfræði leiks

Fréttir
- Auglýsing -