Hér 10 bestu karlkyns íslensku leikmenn sögunnar. Einhverjir gætu haft aðrar skoðanir á þessu. Þær eru rangar.
10. Þórir Magnússon
Tóti Túrbó áður en það var til Tóti Túrbó. Þórir Magnússon var reyndar betur þekktur undir viðurnefninu “Rocket Man” sem hann fékk frá bandarískum andstæðingum sínum sem hann iðulega fór illa með. Hann var vel þekktur fyrir stigaskorun sína og leiddi efstu deild í stigaskorun sex sinnum á ferlinum. 57 stigin sem hann skoraði á móti ÍS árið 1967 er enn met yfir flest stig skoruð af íslendingi í einum leik í efstu deild og hann er einn af fáum Íslendingum sem hafa verið með yfir 30 stig að meðaltali í efstu deild. Hann lék í 18 ár með KFR/Val og var valinn besti leikmaður Íslandsmótsins árið 1974. Árið 1980 tryggði hann Val sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil í körfubolta er hann skoraði 32 stig á móti KR í síðasta leik tímabilsins sem tryggði þeim titilinn. Hann vann annan titil árið 1983, á sínu síðasta keppnistímabili, en varð einnig þrívegis bikarmeistari, 1980, 1981 og 1983.
9. Einar Bollason
Upprunalega KR-Geitin, sem þó var uppalin í ÍR, vann 6 Íslandsmeistaratitla og 6 bikarameistaratitla á ferlinum. Á bakvið óstöðvandi sveifsluskot var hann með 20+ stig að meðaltali á níu tímabilum í efstu deild og leiddi deildina í stigaskorun tímabilið 1969 þegar hann skoraði 31,8 stig að meðaltali í leik. Lék 35 leiki fyrir landsliðið og var valinn í lið 20. aldarinnar árið 2001.
8. Tryggvi Hlinason
Næstbesti stóri maðurinn í sögu Íslands. Fór á undraskömmum tíma úr því að vera óþekktur í einn besta leikmann Íslands. Lykilmaður í landsliðinu, hefur spilað lengi í næst sterkustu deild heims og daðraði við NBA. Væri gaman að sjá hann verða þann besta. Úr sveit í geit hefur ákveðinn tón.
7. Valur Ingimundarson
Stigahæsti leikmaður efstu deildar frá upphafi og í liði 20. aldarinnar. Var tíu sinnum með 20 stig eða meira að meðaltali á tímabili og leiddi deildina fimm sinnum í stigaskorun. Á meðan aðrir leikmenn fóru í aftursætið fyrir erlendum leikmönnum í stigaskorun gerði hann það ekki en fyrstu fjögur tímabilin eftir að erlendir leikmenn voru leyfðir aftur árið 1989 var hann með um 22 stig að meðaltali í leik. Valur skoraði ekki bara heldur varð hann einnig átta sinnum Íslandsmeistari og tvívegis bikarmeistari. Næst leikjahæsti leikmaður landsliðsins frá upphafi með 164 leiki.
6. Jón Kr. Gíslason
Einn besti leikstjórnandinn í sögu efstu deildar en Jón Kr. leiddi deildina sjö sinnum í stoðsendingum en auk þess vann hann þrjá Íslandsmeistaratitla og þrjá bikarmeistaratitla, þar af einn í Danmörku. Fjórum sinnum var hann valinn körfuknattleiksmaður ársins á Íslandi auk þess að vera valinn í lið aldarinnar hjá KKÍ árið 2001. Þriðji leikjahæsti leikmaður landsliðsins með 158 leiki.
5. Teitur Örlygsson
Tífaldur Íslandsmeistari. Þarf að segja meira? Allt í lagi. Hvað með sjö bikarmeistaratitla? Meira? Körfuknattleiksmaður ársins 1995, valinn í lið 20. aldarinnar, fjórum sinnum valinn besti íslenski leikmaður efstu deildar og 11 sinnum valinn í íslenska lið ársins. Fann sér líka tíma til að spila 118 leiki fyrir landsliðið.
4. Martin Hermannsson
Fimm sinnum körfuknattleiksmaður ársins. Tvívegis hefur hann orðið Íslandsmeistari og einu sinni Þýskalandsmeistari ásamt því að verða bikarmeistari í báðum löndunum. Besti leikmaður Íslenska landsliðsins síðan Jón Arnór var upp á sitt besta.
3. Þorsteinn Hallgrímsson
Geitin þangað til núverandi Geit mætti á svæðið. Auk þess að vera fyrsta stórstjarna Íslendinga í körfubolta var hann talinn vera einn besti, ef ekki sá besti, leikmaður Norðurlandanna þegar hann var upp á sitt besta. Hann varð níu sinnum Íslandsmeistari með ÍR en fann sér einnig tíma til að verða fjórum sinnum Danmerkurmeistari með SISU BK. Hann var yngist leikmaður fyrsta landsliðs Íslendinga í körfubolta og er mögulega eini leikmaðurinn sem hefur leikið allar fimm stöðurnar fyrir landsliðið.
2. Jón Arnór Stefánsson
Geitin hjá þeim sem vita ekki betur. Tólf sinnum valinn körfuknattleiksmaður ársins og annar körfuknattleiksmaðurinn í sögunni til að vera valinn Íþróttamaður ársins. Fimm Íslandsmeistaratitlar, íslenskur og ítalskur bikarmeistari ásamt því að vinna FIBA Europe League. 100 landsleikir og var heilt ár í herbúðum Dallas Mavericks.
1. Pétur Guðmundsson
Geitin. Fyrsti og jafnframt eini Íslendingurinn til að spila í NBA deildinni (Sorry Jón, æfingarleikir telja ekki) og sá fyrsti frá Evrópu í deildinni sem byrjaði í körfubolta í heimalandi sínu. Valinn besti íslenski leikmaður 20 aldarinnar. Lék stærstan hluta ferilsins erlendis en var slíkur yfirburðarleikmaður á Íslandi að hann nánast snéri undantekningarlaust við gengi þeirra íslensku liða sem hann gekk til liðs við. Lék 53 landsleiki en var stærstan part ferilsins ekki gjaldgengur í lansliðið sökum þess að vera atvinnumaður í körfubolta. Til að toppa allt þetta er hann á flottustu körfuboltagraffík sem nokkurn tímann hefur verið gerð af íslenskum körfuboltamanni.