spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaKR sigraði Tindastól á Sauðárkróki

KR sigraði Tindastól á Sauðárkróki

Tindastóll tók á móti nýliðum KR í fyrstu umferð Bónus-deildar karla í körfuknattleik í Síkinu á Sauðárkróki í kvöld. Vel var mætt í Síkið að venju og heimamenn spenntir að sjá Tindastólsliðið undir stjórn Benedikts Guðmundssonar.

Leikurinn fór nokkuð jafnt af stað en augljós haustbragur var á leik liðanna og heimamenn áttu í erfiðleikum með að finna skotin sín. Gestirnir voru skrefi á undan og um miðjan annan leikhluta slökktu þeir nánast á heimamönnum og náðu 15-2 kafla sem skilaði þeim 28-43 stöðu í hálfleik.

Það var allt annað Tindastólslið sem kom til leiks í þriðja leikhluta. Vörnin varð ákafari og það skilaði Stólum betri skotum sem þeir nýttu vel. Um miðjan leikhlutann var munurinn orðinn 2 stig og sveiflan með heimamönnum. Tóti túrbó jafnaði metin í 62-62 rétt fyrir lok þriðja leikhluta en Arnar Björnsson átti einn ás uppi í vinstri erminni og setti ótrúlegan flautuþrist frá miðju, 65-62 fyrir lokaátökin. Tindastóll vann þriðja leikhlutann með 18 stigum en náðu ekki að fylgja því eftir í þeim fjórða. Gestirnir sigu framúr með agaðri og hraðri spilamennsku og unnu að lokum nokkuð þægilegan 85-94 sigur.

Tölfræði leiksins

Þórir Guðmundur átti fínan leik fyrir gestina og skilaði þrennu, 14 stig, 11 fráköst og 10 stoðsendingar. Stigahæstur gestanna var Linards með 30 stig og reif einnig niður 11 fráköst. Í slöku liði heimamanna var Basile bestur en athugunarvert var hversu lítið framlag liðið fékk af bekknum, einungis 7 stig.

Myndasafn ( Hjalti Árna )

Tindastóll á næst úti leik gegn ÍR í Breiðholtinu á meðan KR fær Stjörnuna í heimsókn, báðir leikirnir fara fram 10. Október klukkan 19:15


Fréttir
- Auglýsing -