spot_img
HomeBónus deildinBónus deild kvennaLjónynjurnar kvöddu Ljónagryfjuna með sigri

Ljónynjurnar kvöddu Ljónagryfjuna með sigri

Njarðvík hafði sigur á Grindavík í fyrstu umferð Bónus-deildar kvenna í kvöld. Lokatölur 60-54 í Ljónagryfjunni. Brittany Dinkins var stigahæst Njarðvíkinga með 31 stig og 12 fráköst en hjá Grindavík var Hulda Björk Ólafsdóttir atkvæðamest með 13 stig.

Úrslitakeppnisbragur var á Ljónagryfjunni í kvöld fremur en að hér færi fyrsti leikur í deildarkeppni. Fjölmennt var á þessum Suðurnesjaslag Njarðvíkur og Grindavíkur sem jafnframt var kveðjuleikurinn í Ljónagryfjunni áður en Njarðvík tekur hatt sinn og staf yfir í nýtt íþróttahús við Stapaskóla í Innri-Njarðvík.

Yngri iðkendur UMFN mynduðu skjaldborg um völlinn í upphitun og fengu að taka þátt í síðustu leikmannakynningu úrvalsdeildar í Njarðvík. Engin dramatík, vissulega einhver nostalgía sem sveif yfir vötnum, einkum og sér í lagi þegar síðasta lag fyrir leik var með Guns N Roses, mörgum gamalkunnum Njarðvíkingnum fannst það smellpassa. Þeir eru jú að kveðja sína Paradise City.  

Gestirnir frá Grindavík voru sprækari á upphafsmínútunum en áður en leið á löngu tók Brittany Dinkins við sér og kom Njarðvík í 17-11 með tveimur þristum í röð og heimakonur leiddu 19-13 eftir fyrsta leikhluta. Tryggedsson með 5 stig hjá Grindavík en Dinkins 12 hjá Njarðvík.

Njarðvík var áfram með yfirhöndina í öðrum leikhluta, lítið skorað í honum eða 14-9 fyrir Njarðvík sem leiddu þá 33-22 í hálfleik. Dinkins með 20 stig í hálfleik hjá Njarðvík en Hulda Björk Ólafsdóttir með 6 hjá Grindavík.

Grindvíkingar færðu sig ögn nær í þriðja leikhluta og náðu að minnka muninn í 49-40 og í þeim fjórða náðu þær að minnka muninn í 51-50 þegar rúmar fimm mínútur voru eftir. Njarðvíkingar héldu áhlaup gestanna út og fögnuðu að lokum 60-54 sigri.

Tölfræði leiksins

Fréttir
- Auglýsing -