Valur hafði betur gegn Þór Akureyri í N1 höllinni að Hlíðarenda í kvöld, 82-77, en leikurinn var sá fyrsti í deildarkeppni Bónus deildar kvenna.
Fyrir leik
Bæði lið höfðu farið í gegnum nokkrar breytingar yfir sumarið eftir að hafa bæði dottið úr leik í úrslitakeppni síðasta vors í átta liða úrslitum. Þórsliðið virtist þó hafa komið ágætlega undir sumri um síðustu helgi þegar liðið tryggði sér sigur í meisturum meistara með því að leggja deildar, bikar- og Íslandsmeistara Keflavíkur í Blue höllinni.
Gangur leiks
Liðin skiptust á áhlaupum á upphafsmínútum leiksins. Mest leiðir Þór með 7 stigum í fyrsta leikhlutanum áður en Valur kemur til baka og er yfir þegar fjórðungurinn er á enda, 25-23. Gestirnir frá Akureyri virðast svo aftur ná góðum tökum á leiknum í öðrum leikhlutanum. Eru skrefinu á undan allan fjórðunginn og fara með 9 stiga forystu til búningsherbergja í hálfleik, 41-50.
Stigahæst heimakvenna í fyrri hálfleiknum var Alyssa Marie Cerino með 16 stig á meðan Esther Marjolein Fokke var komin með 15 stig fyrir Þór.
Heimakonur hóta áhlaupi í upphafi seinni hálfleiks. Þórsarar eru þó snöggar að kveða það í kútinn. Valskonur halda áfram að reyna til loka þriðja leikhlutans, en munurinn er enn 7 stig fyrir lokaleikhlutann, 63-70. Valur nær að komast ansi nálægt gestunum í upphafi fjórða leikhlutans og er munurinn aðeins 2 stig þegar rumar 4 mínútur eru til leiksloka, 73-75. Þær ná svo í framhaldi að komast yfir, 76-75 þegar um tvær mínútur eru eftir. Á lokamínútunum gera þær svo vel að bæta í og stela að lokum sigrinum, 82-77.
Kjarninn
Hvort sem það var sterk vörn norðankvenna eða slæmt skipulag Vals virtust heimakonur oftast nokkuð ráðalausar sóknarlega í leik kvöldsins. Voru alltof oft neyddar til að taka vond skot og á löngum köflum vildi hreinlega ekkert niður hjá þeim. Á móti, höfðu gestirnir frá Akureyri á að skipa mjög örugga leikmenn sóknarlega, þá sérstaklega í Evu, Amandine, Esther og Madison sem allavegana tókst vel til að búa til fyrir sjálfar sig á sóknarhelmingi vallarins. Valskonur geta þakkað guði fyrir framlag Alyssa Marie Cerino í leiknum, sem var gjörsamlega óstöðvandi, setti yfir 30 stig og hélt þeim á floti nógu lengi til þess þær gætu stolið þessum sigri á lokamínútunum.
Hvað svo?
Bæði lið eiga leik næst komandi þriðjudag 8. október, en þá heimsækir Þór lið Hamars/Þórs í Þorlákshöfn og Valur mætir Grindavík í Smáranum.
Myndasafn (væntanlegt)