spot_img
HomeNBAVar Pétur Guðmundsson fyrsti evrópski leikmaðurinn til að leika í NBA?

Var Pétur Guðmundsson fyrsti evrópski leikmaðurinn til að leika í NBA?

Því hefur oft verið fleygt fram að Pétur Guðmundsson, fyrsti og eini íslenski leikmaðurinn sem hefur spilaði í NBA, hafi jafnframt verið fyrsti evrópubúinn til að spila í NBA. En er það rétt?

Stutta svarið. Nei.

Langa svarið er ennþá nei en aðeins flóknara.

Byrjum á byrjuninni. Fyrsti einstaklingurinn fæddur í Evrópu til að spila í NBA var Johnny Macknowski sem var fæddur í Barwinek í Póllandi og lék sinn fyrsta NBA leik þann 3. nóvember 1949. En var hann fyrstur? Eitt af því sem NBA hefur ágæta hæfileika í er að endurskrifa sína eigin sögu (Halló Charlotte Bobcats/Hornets/Pelicans) og flækja þannig hlutina.

Eins og fæstir vita þá var deildin stofnuð með samruna tveggja atvinnumannadeilda í Bandaríkjunum sem börðust í bökkum, National Basketball League (NBL) og Basketball Association of America (BAA). Nokkrum árum eftir sameiningunni ákvað deildin svo að gera þriggja ára sögu BAA að sinni og taldi stofndag hennar sem sinn eigin. Ef miðað er við sögufölsun NBA, þá var Charlie Hoefer, leikmaður Toronto Huskies, sá fyrsti en hann fæddist í Frankfurt í Þýskalandi. Og ef við viljum flækja hlutina enn frekar og telja einnig með NBL deildina, sem má éta það sem úti frýs ef einhver hjá NBA er spurður, þá var John nokkur Moir frá Skotlandi sá fyrsti árið 1938.

Allir þessir leikmenn, ásamt nokkrum öðrum sem ekki eru taldir upp, eiga það hins veagar sameiginlegt að hafa flust með fjölskyldum sínum til Norður Ameríku sem ung börn og kynnst körfubolta þar. Pétur aftur á móti byrjaði að spila körfubolta í heimalandinu sínu áður en hann flytur vestur um haf sérstaklega til að halda körfuboltaferlinum áfram, fyrst í skóla en svo í NBA eftir að hafa verið valinn í nýliðavalinu árið 1981. Hann er því fyrsti Evrópubúinn sem spilar í NBA eftir að hafa alist upp í heimalandi sínu og tekið upp körfuboltaiðkun þar.

Það var þó einn Evrópubúi nálægt því að slá Pétri við og það tveimur áratugum fyrr. Þar var á ferðinni Frakkinn Jean-Claude Lefèbvre sem lék tvö ár með Gonzaga háskólanum, þar sem hann meðal annars skoraði 50 stig í einum leik, áður en hann var valinn af Minneapolis Lakers í nýliðavalinu árið 1960. Hinn 218 cm hái Lefèbvre glímdi hins vegar við meiðsli og veikindi á þessum tíma og lék aldrei í NBA.

Þá er heldur ekki svo loku fyrir skotið að Búlgarar gætu gert einhverja kröfu á fyrsta “alvöru” Evrópubúann í NBA því geitin þeirra, Georgi Glouchkov, náði því afreki að vera fyrsti Evrópubúinn til að spila í deildinni án þess að hafa spilað neitt í skólakerfinu í Bandaríkjunum en hann lék eitt tímabil í NBA eftir að hafa verið valinn með 148 valréttinum af Phoenix Suns í nýliðavalinu árið 1985.

En hvað sem öllum þessum pælingum líður þá á Pétur Karl Guðmundsson skuldlaust ansi stóran sess í sögu NBA sem einn af brautryðjendum evrópskra körfuknattleiksmanna í deildinni.

Fréttir
- Auglýsing -