Þór Akureyri varð meistari meistaranna í dag eftir sigur gegn Keflavík í Blue höllinni, 82-86, en þar sem Keflavík eru ríkjandi deildar, bikar- og Íslandsmeistarar mættu þær liðinu sem þær léku við í úrslitum bikarkeppninnar.
Það voru heimakonur í Keflavík sem hófu leik dagsins betur. Leiddu með fimm stigum eftir fyrsta fjórðung. Gestirnir frá Akureyri náðu svo að snúa taflinu sér í vil undir lok fyrri hálfleiksins og eru komnar með þriggja stiga forystu þegar liðin halda til búningsherbergja, 34-37. Lengst af er Keflavík svo með góð tök á leiknum í upphafi þess þriðja, en undir lokin nær Þór góðu áhlaupi og eru þær því enn skrefinu á undan inn í lokaleikhlutann, 58-62. Leikurinn er svo í járnum fram á lokamínúturnar þegar Þór siglir framúr og vinnur að lokum nokkuð sterkan sigur, 82-86.
Atkvæðamest í liði heimakvenna í dag var Thelma Dís Ágústsdóttir með 18 stig og 6 fráköst. Henni næst var Agnes María Svansdóttir með 17 stig og 5 fráköst.
Fyrir Þór var Amandine Justine Toi með 31 stig, 6 fráköst og Maddie Sutton með 21 stig, 27 fráköst og 11 stoðsendingar.
Bæði lið leika í Bónus deild kvenna á komandi tímabili, en deildin rúllar af stað eftir helgina. Þriðjudag 1. október heimsækir Þór lið Vals í N1 höllina og degi seinna mætast Keflavík og Stjarnan í Garðabæ í fyrstu umferðinni.
Myndasafn (Gunnar Jónatansson)