Fyrsti deildarleikur Fylkis í meistaraflokki karla tímabilið 2024-2025 var æsispennandi þó að úrslitin hafi ekki verið eins og Árbæingar vildu. Fylkir tók á móti Álftanesi b í 2. deildinni og eftir framlengdan leik töpuðu heimamenn með einu stigi, 91-92.
Í fyrstu fóru bæði lið mjög óvarlega með boltann og töpuðu boltanum trekk í trekk. Fyrsta skotið á körfuna reið ekki af fyrr en rúmri mínútu eftir að leikar hófust! Eftir það komust liðin aðeins í gírinn þó að slök vörn og þar af leiðandi margar dæmdar villur hægðu á flæðinu í fyrri hálfleiknum. Þó nokkrir leikmenn í báðum liðum voru komnir í villuvandræði áður en fyrstu tveir leikhlutarnir voru búnir.
Í öðrum leikhluta átti Magnús Lúðvíksson góðan kafla fyrir Álftanes þar sem hann skoraði 13 stig bara í þeim fjórðungi. Álftnesingar unnu þann leikhluta með 12 stigum og staðan í hálfleik 42-47, gestunum í vil.
Í seinni hálfleik höfðu menn fundið línuna og hættu að fá jafn margar villur dæmdar á sig svo flæði komst á. Álftnesingar sýndu gæði sín með því að ráðast á körfuna og senda boltann út á lausa menn við þriggja stiga línuna sem leiddi til margra auðvelda þrista í leikhlutanum. Fylkismenn létu það þó ekki stöðva sig og tveir ungir og efnilegir leikmenn þeirra, Óðinn Þórðarson og Þórarinn Gunnar Óskarsson, voru á köflum óstöðvandi svo að Álftnesingar gátu ekki slitið sig frá heimamönnum.
Í fjórða leikhluta var spennan áfram í hámarki og á köflum leit út fyrir að Fylkir væri búið að tapa þessu. Þegar þrjár mínútur lifðu leiks var munurinn 9 stig en Fylkismenn náðu með baráttu að brúa bilið og settu þrist með lítið eftir af leiknum til að merja framlengingu.
Í framlengingunni var ekki mikið um körfur og Álftanes b skoraði aðeins 4 stig. Það dugði þó til sigurs þar sem heimamenn skoruðu bara úr einni þriggja stiga körfu í framlengingunni. Úrslitin urðu því 91-92, Álftanes b í vil.
Ljóst er að Álftanes b er með marga góða leikmenn (og vantaði samt einn af betri leikmönnum liðsins) en Fylkir á líka fullt erindi í að vera ofarlega í deildinni. Þeim brast aðallega bogalistin í þristum í leiknum, en þó að tölfræði hafi ekki verið tekin á leiknum var þessum penna nokkuð ljóst að Árbæingar skutu eflaust undir 20% frá þriggja stiga línunni.
2. deildin verður örugglega þrælskemmtileg í ár og gaman verður að fylgjast með ýmist ungum og efnilegum leikmönnum sem og eldri og reynslumeiri leikmönnum.
Hér má skoða stöðuna í 2. deild karla
Mynd / Fylkir FB