Álftnesingar lögðu Hauka í kvöld á heimavelli sínum í Forsetahöllinni í æfingaleik 99-91, en liðin undirbúa sig bæði fyrir komandi tímabil í Bónus deild karla. Samkvæmt heimildum Körfunnar var vel mætt og góð stemning á leik þessara grannaliða í kvöld þrátt fyrir að um æfingaleik hafi verið að ræða.
Samkvæmt Facebook færslu Álftnesinga mættust liðin fyrir um tveimur vikum síðan, en voru þá talsvert frá því að vera fullskipuð. Í þeim leik höfðu Haukar yfirhöndina framan af en Álftnesingar sigu framúr í seinni hálfleik. Segir í færslunni að leikurinn í kvöld hafi verið hálfgerð endurtekning á leiknum í ágúst, Haukar fóru með tíu stiga forystu inn í hálfleik. Álftnesingar fundu svo taktinn og náðu mest tíu stiga forystu í fjórða leikhluta.
Dimitrios Klonaras var stigahæstur fyrir Álftanes í kvöld með 19 stig. Þá skiluðu Andrew Jones 18 stigum, Dúi Þór Jónsson 14 stigum, Haukur Helgi Pálsson 12 stigum, Hörður Axel Vilhjálmsson 11 stigum og Alexis Yetna 10 stigum.
Fyrir Hauka var það Everage Lee Richardson sem skoraði mest með 22 stig. Honum næstir voru Tyson Jolly með 17 stig, Hilmir Hallgrímsson með 12 stig og Hugi Hallgrímsson með 10 stig.
Fréttir og tölfræði úr æfingaleikjum má senda á [email protected]