Undir 18 ára stúlknalið Íslands mátti þola tap í kvöld gegn Svíþjóð á Evrópumótinu í Ploiesti í Rúmeníu. Leikurinn var sá annar sem liðið leikur í milliriðil í umspili um sæti 9 til 18 á mótinu, en í gær lögðu þær Rúmeníu.
Það var íslenska liðið sem byrjaði leik kvöldsins betur. Þær leiddu með 4 stigum eftir fyrsta leikhluta og 8 stigum þegar liðin héldu til búningsherbergja í hálfleik. Við þá forystu bætti Ísland svo í upphafi seinni hálfleiksins og voru þær 15 stigum yfir fyrir lokaleikhlutann. Í honum virtist botninn svo hafa dottið úr leik liðsins, þær tapa þeim fjórða með 20 stigum og leiknum að lokum með 5, 75-80.
Atkvæðamest fyrir Ísland í leiknum var Kolbrún María Ármannsdóttir með 30 stig, 9 fráköst og 3 stoðsendingar. Henni næst var Bára Björk Óladóttir með 9 stig og 3 fráköst.
Næsti leikur Íslands í milliriðlinum er á morgun laugardag kl. 18:00 að íslenskum tíma gegn Úkraínu.