spot_img
HomeFréttirLárus eftir Norðulanda- og Evrópumót með undir 18 ára drengjum "Liðið var...

Lárus eftir Norðulanda- og Evrópumót með undir 18 ára drengjum “Liðið var stöðugt að bæta sig”

Undir 18 ára drengjalið Íslands lauk á dögunum verkefnum sumarsins er liðið lauk keppni í B deild Evrópumótsins í Skopje í Makedóníu. Liðið hafnaði í 12. sæti af 22 liðum á mótinu, en í heild vann liðið fjóra leiki og tapaði fjórum á mótinu.

Mikið jafnræði var á með Íslandi og mótherjum þeirra í riðlakeppni mótsins, þar sem þrjú lið voru jöfn í 2. til 4. sæti riðilsins með þrjá sigra og tvö töp, en vegna slæmrar innbyrðisstöðu endaði Ísland í fjórða sætinu og komst því ekki í átta liða úrslit mótsins, en aðeins efstu tvö lið hvers riðils komust áfram.

Árangur Íslands á Evrópumótinu öllu betri en hann var á Norðurlandamótinu fyrr í sumar, þar sem liðið hafði endað í sjötta sæti með einn sigur og fjögur töp. Það skal þó tekið fram að niðurstaðan á því móti endurspeglaði frammistöðu liðsins aðeins að litlu leyti, þar sem liðið var alltaf í hörkuleikjum.

Karfan hafði samband við Lárus Jónsson þjálfara Íslands og spurði hann út í hvernig hann teldi sumarið hafa gengið hjá hópnum og hvað hann haldi að þurfi að gerast svo liðið geti haldið áfram að taka skref upp á við í framtíðinni.

Hvernig fannst þér verkefni sumarsins (NM og EM) ganga?

“Við nýttum NM sem æfingamót fyrir EM, það var góður stígandi í liðinu á NM þar sem við áttum frábæra þrjá leikhlut á móti Finnum sem unnu mótið og unnum svo Noreg í lokaleiknum enn þeir voru sterkir þetta árið og enduðu í öðru sæti.”

Hvernig fannst þér þróunin vera á liðinu yfir þessa mánuði?

“Liðið var mjög jafnt þannig að það var mismunandi hverjir voru að leiða hverju sinni sem gerði það að verkum að allir leikmenn fengu að láta ljós sitt skína á einhverju tímapunkti. Liðið var stöðugt að bæta sig sem sást best að við sigrum Eista nokkuð örugglega á EM sem við töpuðum fyrir á NM.”

Hvernig metur þú árangurinn á EM og NM í sumar?

“Árangurinn í sumar var viðunandi. Það vantaði Arnór Helgason og Heimir Helgason í hópinn og þeir hefðu án efa styrkt hann töluvert. Eins og ég sagði áður þá horfðum við eingöngu á NM sem æfingamót þar sem allir fengu að spreyta sig.”

Eruð nálægt því að komast í 8 liða úrslitin á Evrópumótinu, hvað hefði þurft að ganga upp svo af yrði og hefðuð þið átt möguleika á að fara lengra?

“Við vorum í 6 liða riðli á EM þar sem Sviss urðu efstir og við vorum með jafn mörg stig og Pólland og Ungverjaland í öðru til fjórða sæti en Pólverjar fóru áfram á stigahlufalli. Riðillinn var gríðarlega sterkur og við áttum okkar besta leik í sumar þegar við sigruðum Ungverja í riðlakeppninni.”

Hvernig sérð þú þetta lið á komandi árum?

“Næsta ár gæti verið mjög spennandi hjá liðinu þar sem sterkir leikmenn eru að koma upp úr U16 ásamt því að það voru góðir leikmenn sem voru á yngra ári núna sem eiga án efa eftir að vera reynslunni ríkari næsta sumar. Ásamt góðum leikmönnum sem voru á yngra ári og komust ekki í hópinn þetta sumarið.”

Hvað þarf að gerast svo þessi árgangur nái að taka næsta skref?

“Það sem mér finnst skipta mestu máli er hvað strákarnir gera aukalega til þess að verða betri leikmenn. Vonandi ná þeir að nýta reynsluna úr verkefninu og sjá hvað þeir þurfa að laga, þannig náum við smám saman að byggja upp breiðan hóp af góðum leikmönnum. Svo ná vonandi einhverjir af þessum leikmönnum að spila með A-landsliðinu sem er meginmarkmiðið.”

Fréttir
- Auglýsing -