Bakvörður Grindavíkur, Sigtryggur Arnar Björnsson hefur samið við Real Canoe um að leika með liðinu á yfirstandandi tímabili. Mun hann því ekki vera með Grindavík þegar að deildin fer aftur af stað nú í vikunni. Real Canoe er staðsett í Madríd, en félagið leikur í næst efstu deild Spánar, Leb Oro. Fyrir í Leb Oro deildinni er liðsfélagi Arnars úr íslenska landsliðinu, Kári Jónsson, en hann leikur með liði Girona.
Um félagaskiptin hafði Arnar þetta að segja:
„Þetta tækifæri kom óvænt upp. Ég er mjög þakklátur stjórn körfuknattleiksdeildar Grindavíkur fyrir að sýna þessu skilning og gefa mér heimild til að fara í atvinnumennsku. Stefnan var sett á að gera góða hluti með Grindavík eftir áramót. Þetta tækifæri er of gott til að sleppa því á þessum tímapunkti á mínum ferli. Ég vil koma á framfæri kveðju til stuðningsmanna Grindavíkur sem hafa tekið vel á móti mér frá fyrsta degi. Mér hefur liðið mjög vel hjá félaginu og mun fylgjast grannt með gengi Grindavíkur áfram,“