Stór félagaskipti áttu sér stað í 1. deild karla í morgun en Ármann tilkynnti þar að liðið hefði náð samkomulagi við Cedrick Bowen um að leika með félaginu á komandi leiktíð.
Cedrick sem kemur frá Álftanesi og hefur leikið þar síðustu ár við góðan orðstýr. Hann lék í fyrsta sinn sem íslenskur leikmaður á nýliðinni leiktíð í Subway deildinni en hefur nú ákveðið að taka skrefið aftur í 1. deildina og stykir þar lið Ármanns óumdeilanlega. Cedrick hafði verið orðaður við lið í Bónus deildinni í “Orðið á götunni” nýlega og því eftirsóttur leikmaður.
Ármenningar hafa verið iðnir í kolan í sumar og fengið þá Adama Darboe, Arnald Grímsson og Zach Naylor til félagsins auk þess að halda Alfonso Birgi og Bjarna Geir. Liðið endaði í 10. sæti deildarinnar á síðustu leiktíð og spurning hvort þessar viðbætur séu nóg til að gera betur á næstu leiktíð?
Tilkynningu Ármenninga má finna í heild sinni hér að neðan:
Cedrick Bowen hefur skrifað undir samning þess efnis að leika með meistaraflokki Ármanns á komandi leiktíð. Cedrick er þekkt stærð í íslenskum körfubolta og mikill hvalreki fyrir okkur Ármenninga.
Bowen er 31. árs miðherji sem leikið hefur með Álftanesi síðustu ár. Hann er fæddur í Bandaríkjunum og lék með Charleston Southern háskólanum þar í landi. Eftir útskrift árið 2015 hóf hann atvinnumannaferil sinn og hefur leikið í Svartfjallalandi, Búlgaríu, Norður Makedóníu og Litháen svo eitthvað sé nefnt.
Cedrick kom fyrst til landsins árið 2016 og lék með KR og Haukum það tímabilið. Árið 2020 sneri hann aftur til landsins og hefur leikið með Álftanesi síðan. Hann hefur verið stór hluti af uppbyggingunni þar og lék á síðustu leiktíð með liðinu í Subway deildinni. Í dag hefur Cedrick komið sér fyrir á Íslandi og á fjölskyldu hér. Hann leikur því sem íslenskur leikmaður í deildinni.
Við erum því gríðarlega ánægð að þessi öflugi leikmaður velji að leika með Ármann næsta árið og vilji hjálpa félaginu að taka næstu skref í uppbyggingunni. Cedrick mun einnig þjálfa hjá félaginu og er spenntur fyrir því verkefni.
Velkominn til Ármanns Cedrick, hlökkum til samstarfsins.
Áfram Ármann