spot_img
HomeFréttirUndanúrslit Evrópumótsins í uppnámi - 50 manns með matarsýkingu í Sófíu

Undanúrslit Evrópumótsins í uppnámi – 50 manns með matarsýkingu í Sófíu

Undir 20 ára kvennalið Íslands mun mæta Belgíu kl. 17:30 í kvöld í undanúrslitum Evrópumótsins í Sófíu í Búlgaríu. Með sigri gegn Írlandi síðasta fimmtudag náði Ísland að tryggja sig í þessi undanúrslit, en í hinum undanúrslitaleiknum mætast Holland og Tékkland. 

Undanúrslitaviðureignirnar sem fara báðar fram í dag eru þó báðar í þónokkru uppnámi. Eins og venja er á slíkum mótum eru öll lið keppninnar á sama hóteli og notast við sama matsal eða veitingastað flestum stundum. Samkvæmt heimildum Körfunnar hefur komið upp nokkuð alvarleg matarsýking á þessum tiltekna stað á síðustu dögum þar sem 50 einstaklingar hafa smitast og hafa þónokkrir þurft að dvelja á sjúkrahúsi til þess að fá bót sinna meina.

Í samtali við Körfuna nú í morgun staðfesti Ólafur Jónas Sigurðsson þjálfari Íslands fregnirnar og sagði ástandið ekki gott á hópum nokkurra liða á mótinu. Sagði hann að fjórir úr leikmannahópi og starfsliði Íslands væru að finna fyrir einkennum matareitrunarinnar og að einn leikmaður þeirra hefði verið fluttur á sjúkrahús frá þeim. Sagði hann ennfrekar að þrátt fyrir þetta væri búist við því að leikur dagsins færi fram, en samkvæmt bestu vitund hans væri það svo að leikir færu venjulega fram svo lengi sem nægir leikmenn væru til taks til að fara inn á völlinn og spila. Sagðist hann ásamt forsvarsmönnum KKÍ þó hafa verið í samskiptum við FIBA síðasta sólahringinn varðandi ástandið.

Önnur lið hótelsins sagði hann einnig hafa fundið fyrir matareitruninni. Sér í lagi talaði hann um Tékkland, sem á leik í hinni undanúrslitaviðureigninni og að þær ætti, líkt og Ísland, eftir að vanta nokkra leikmenn í leik sínum í dag. Mótherja dagsins, Belgíu, sagði hann þó hafa sloppið gífurlega vel frá matareitruninni og að líklega gætu þær stillt upp sínu sterkasta tólf manna liði í undanúrslitaleiknum sem fram fer kl. 17:30.

Hérna verður hægt að horfa á undanúrslitaleik Íslands og Belgíu

Fréttir
- Auglýsing -