Það styttist óðum í nýtt körfuboltatímabil og ljóst að mörg lið eru á fullu að reyna að styrkja hópa sína fyrir komandi átök.
Fyrr í dag tilkynnti lið Ármanns í 1. deild kvenna að liðið hefði samið við öflugan leikmann í Huldu Ósk Bergsteinsdóttir. Hulda kemur frá Akureyri þar sem hún átti fínt tímabil með Subway deildar liði Þórs Ak. Hún hefur ákveðið að flytja aftur í borgina og leika aftur í 1. deildinni sem hún þekkir vel.
Tilkynningu Ármenninga má finna hér að neðan:
Hulda semur við Ármann🤍💙
Það er okkur mikill heiður að tilkynna að félagið hefur samið við Huldu Ósk Bergsteinsdóttur um að leika með liðinu á komandi tímabili.
Hulda kemur frá Þór Akureyri en voru þær í bikarúrslitum á síðasta tímabili. Hulda var fastamaður í byrjunarliði liðsins og mun koma til með að styrkja Ármanns liðið mikið á komandi tímabili.
Hulda hefur spilað nokkur tímabil í 1. deild kvenna þar sem hún hefur staðið sig mjög vel og var hún m.a. valin í úrvalslið 1. deildar kvk á uppskeruhátíð KKÍ tímabilin 18-19, 21-22 og 22-23. Þá má geta þess að Hulda spilaði á sínum yngri árum fyrir yngri landslið Íslands, U16, U18 og U20.
Við erum gríðarlega stolt af því að Hulda velji það að taka sín næstu skref hjá Ármanni. Við teljum að hún geti haldið áfram að taka framförum hjá okkur og við fyrstu sýn virðist hún smellpassa inn í okkar góða leikmannahóp.
Við bjóðum Huldu hjartanlega velkominn í Laugardalinn og hlökkum til samstarfsins.
Áfram Ármann💙🤍