spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaFramherjinn stæðilegi til Álftaness

Framherjinn stæðilegi til Álftaness

Álftanes hefur samið við Tómas Þórð Hilmarsson til næstu tveggja ára. Tilkynnir félagið þetta með fréttatilkynningu fyrr í dag.

Tómas Þórður er 29 ára gamall og kemur til Álftaness frá Stjörnunni, þar sem hann á sínum tíma lék upp alla yngri flokka og með meistaraflokki félagsins frá árinu 2011. Vera hans hjá Stjörnunni nánast ólsitin þangað til nú, en fyrir utan Stjörnuna lék hann fyrir Francis Marion í bandaríska háskólaboltanum 2016 og þá var hann á mála hjá Aquimisa Carbajosa á Spáni tímabilið 2020-21. Þá var hann einnig hluti af öllum yngri landsliðum Íslands á sínum tíma og hefur leikið 11 leiki fyrir A landsliðið.

„Tilfinningin er góð að vera kominn í Álftanes og ég er mjög peppaður, liðið lítur orðið mjög vel út og hlakka ég til komandi tímabils,“ segir Tómas Þórður Hilmarsson um vistaskiptin. Hann segir að aðdragandinn hafi ekki verið langur og ferlið gengið smurt fyrir sig. Tómas þekkir Kjartan Atla Kjartansson, þjálfara Álftnesinga, nokkuð vel en Tómas lék fyrir Kjartan um árabil í yngri flokkum Stjörnunnar. „Þjálfarateymið lítur mjög vel út með Hjalta kominn inn í þetta og þekkjandi Kjarra frá yngri árum þá veit ég hvað ég mun fá frá honum, auk þess sem leikmannahópurinn er mjög góð blanda af leikmönnum með reynslu og gæði.“ 

„Ég þekki Tomma vel. Ég þjálfaði hann lengi í yngri flokkunum, lék með honum í meistaraflokki og þjálfaði hann síðan sömuleiðis á þeim vettvangi. Hann er algjör nagli og er leikmaður sem er gott að hafa við hliðina á sér í baráttunni,“ segir Kjartan Atli Kjartansson, þjálfari Álftaness Hann bætir við að Tómas sé reynslumikill leikmaður sem kemur með ýmsa kosti inn í leikmannahóp Álftnesinga. „Tommi þekkir deildina út og inn, frákastar virkilega vel, teygir á gólfinu með góðum langskotum og kemur með ýmislegt annað að borðinu. Ég hlakka til að sjá hann í Álftanesbúningnum.“

Fréttir
- Auglýsing -