Leikmaður KR Gunnar Ingi Harðarson hefur ákveðið að leggja skóna á hilluna 27 ára gamall. Tilkynnir Gunnar þetta á samfélagsmiðlum.
Gunnar Ingi leggur skóna á hilluna sem leikmaður KR, en hann var mikilvægur leikmaður í liði þeirra sem vann sig beint aftur upp í Subway deildina á síðustu leiktíð með því að vinna fyrstu deildina. Gunnar er að upplagi úr Ármann, en lék einnig fyrir yngri flokka KR á sínum tíma. Þá var hann einnig á mála hjá FSu, Haukum, Ármann og Val á Íslandi. Þá var hann með Freedom Christian í miðskóla og Belmont Abbey í bandaríska háskólaboltanum. Á sínum tíma var hann einnig hluti af yngri landliðum Íslands.
Samkvæmt færslu Gunnars mun hann þó ekki yfirgefa íþróttina, þar sem hann mun nú einbeita sér að þjálfun, en færsluna má lesa hér fyrir neðan.