Undir 16 ára stúlknalið Íslands mátti þola tap gegn sterku liði Svíþjóðar á Norðurlandamótinu í Kisakallio, 78-76. Íslenska liðið því búið að vinna einn og tapa einum leik, en á morgun mæta þær Eistlandi.
Fyrir leik
Fyrir leikinn höfðu bæði lið spilað einn leik, Ísland vann sannfærandi sigur gegn Noregi í gær, 35-72, og Svíþjóð unnu Eistland, 71-49.
Í byrjunarliði Íslands í dag voru þær Rebekka Rut Steingrímsdóttir, Hulda María Agnarsdóttir, Tinna Diljá Jónasdóttir, Sara Björk Logadóttir og Kristín Björk Guðjónsdóttir.
Gangur leiks
Leikurinn byrjaði með hvelli en bæði lið spiluðu hratt og vörðust hátt á vellinum. Íslenska liðið nýtti illa þó nokkrar auðveldar körfur en liðin voru jöfn 8-8 eftir 5 mínútna leik. Íslenska liðið róaðist aðeins síðustu mínútur leikhlutans, gáfu boltann minna frá sér og skoruðu úr sniðskotum sínum. Fyrsti leikhluti endaði 14-17 Íslandi í vil. Í öðrum leikhluta komst Ísland snemma í 7 stiga forystu en þegar leið á leikhlutann náði Svíþjóð að brúa bilið mest megnis með sóknarfráköstum sínum og stolnum boltum. Þegar mínúta er eftir af leikhlutanum er staðan 37-34 og Svíþjóð komið yfir. Ísland nær að hanga í þeim og er munurinn 2 stig þegar haldið er til búningsherbergja í hálfleik, 39-37.
Stigahæstar í fyrri hálfleiknum voru Sara Björk Logadóttir með 9 stig og Þórey Tea Þorleifsdóttir með 7 stig.
Seinni hálfleikur byrjaði brösulega en Svíþjóð stal boltanum í tvígang og skoraði 2 auðveldar körfur. Ísland svaraði vel með því að gera nákvæmlega það sama. Svíarnir skutu mun fleiri þrista og hitta oftar úr þeim, Ísland nýttu tveggja stiga skotin sín hins vegar betur og komust yfir 51-53 þegar 3 mínútur voru eftir af leikhlutanum. Leikhlutinn endar með flautukörfu hjá Rebekku sem kemur Íslandi einu stigi yfir, 58-59. Svíþjóð byrjar fjórða leikhluta virkilega vel og komast í 12 stiga forskot á fyrstu 4 mínútunum. Ísland náði að minnka muninn í 6 stig með 3 mínútur eftir af klukkunni. Á loka mínútu leiksins leiddi Svíþjóð með 5 stigum en Adda hitti þrist og minnkaði í 2 stig. Ísland reyndi hvað það gat að jafna og fara í framlengingu en allt kom fyrir ekki og leikurinn endaði með tveggja stiga sigri Svíþjóðar, 78-76.
Atkvæðamestar
Atkvæðamestar í liði Íslands voru þær Rebekka Rut Steingrímsdóttir með 20 stig, 9 fráköst og 4 stolna bolta og Hulda María Agnarsdóttir með 16 stig 6 fráköst og 4 stoðsendingar.
Hvað svo?
Íslenska liðið á leik á morgun gegn Eistlandi kl. 11:15