spot_img
HomeFréttirStórleikur Kolbrúnar Maríu ekki nóg gegn spræku liði Danmerkur

Stórleikur Kolbrúnar Maríu ekki nóg gegn spræku liði Danmerkur

Undir 18 ára stúlknalið Íslands mátti þola tap í dag fyrir Danmörku í öðrum leik sínum á Norðurlandamótinu í Södertalje í Svíþjóð, 76-69. Ísland hefur því tapað fyrstu tveimur leikjum sínum á mótinu, en næst leika þær komandi fimmtudag 4. júlí gegn heimakonum í Svíþjóð.

Fyrir leik

Íslenska liðið hafði tapað sínum fyrsta leik á mótinu í gær gegn Eistlandi. Sú frammistaða var gífurlega kaflaskipt, en þá lentu þær um 20 stigum undir og unnu sig til baka. Fengu að lokum tækifæri til að stela sigrinum á lokamínútunum, en allt kom fyrir ekki.

Byrjunarlið Íslands í dag voru Kolbrún María Ármannsdóttir, Elísabet Ólafsdóttir, Bára Björk Óladóttir, Anna María Magnúsdóttir og Fjóla Gerður Gunnarsdóttir.

Gangur leiks

Eftir eilítið brösuga byrjun hjá báðum liðum náði íslenska liðið góðum tökum á leiknum og leiddu þær með níu stigum eftir fyrsta leikhluta, 10-19. Í öðrum leikhlutanum nær Danmörk að svara nokkuð vel fyrir erfiðan fyrsta leikhluta sinn. Hanga í þeim íslensku og er munurinn aðeins fimm stig þegar rúmar fjórar eru eftir af hálfleiknum, 24-29. Leikurinn helst svo jafn fram að hálfleik, en þegar liðin halda til búningsherbergja er Ísland tveimur stigum á undan, 37-39.

Stigahæstar fyrir Ísland í fyrri hálfleiknum voru Kolbrún María með 17 stig og Bára Björk og Anna María með 5 stig hvor.

Danska liðið nær yfirhöndinni í upphafi seinni hálfleiksins og eru skrefinu á undan allan þriðja fjórðunginn. Staðan fyrir lokaleikhlutann 58-51 Danmörku í vil. Leikurinn er svo nokkuð jafn og spennandi inn í fjórða leikhlutann, þar Danmörk er þó einni til tveimur körfum á unda, en þegar fimm mínútur eru til leiksloka er staðan 69-66. Með þrist frá Báru Björk jafnar Ísland leikinn í framhaldinu, 69-69. Þrátt fyrir að hafa barist hetjulega nær íslenska liðið ekki að fylgja þessu eftir á lokamínútunum, Danmörk skorar sjö síðustu stig leiksins og sigrar að lokum 76-69.

Atkvæðamestar

Atkvæðamest fyrir Ísland í leiknum var Kolbrún María Ármannsdóttir með 31 stig, 7 fráköst og 4 stoðsendingar. Henni næst var Jóhanna Ýr Ágústsdóttir með 12 stig.

Kjarninn

Ólíkt leiknum í gær þar sem að íslenska liðið byrjaði illa og endaði sterkt. Þá byrjaði liðið vel í dag, voru áræðnar í því sem þær voru að gera og voru snemma komnar með þægilega forystu sem þær svo, eiginlega, köstuðu frá sér. Voru þó virkilega óheppnar að sleppa ekki með sigurinn undir lokin.

Hvað svo?

Íslenska liðið leikur næst komandi fimmtudag 4. júlí kl. 17:45 gegn Svíþjóð.

Tölfræði leiks

Myndasafn

Fréttir
- Auglýsing -