Undir 18 ára drengjalið Íslands leikur þessa dagana á Norðurlandamóti í Södertalje í Svíþjóð. Leikar hófust í gær, en þá beið liðið ósigur gegn Eistlandi eftir æsispennandi leik, 79-81.
Flestir höfðu leikmenn liðsins einnig verið hluti af öðrum yngri landsliðshópum Íslands á síðustu árum, hvort sem það var á yngra árinu í undir 18 ára, í undir 16 ára liðinu eða undir 15 ára liðinu. Einn leikmaður liðsins var þó í gær að leika sinn fyrsta leik fyrir Ísland, Magni Thor Grissom, en hann er með tvöfalt ríkisfang, bandarískt og íslenskt og hefur hann alist upp í Dallas borg Texas ríkis Bandaríkjanna. Móðir Thors er íslensk og faðir hans bandarískur að uppruna, en hann heitir Davíð Alan Grissom og lék á sínum tíma með nokkrum liðum á Íslandi, Reyni, Val, KR, Breiðablik og lengst af liði Keflavíkur.
Thor hefur gert það nokkuð vel með Colony miðskólanum í Texas og mun samkvæmt heimildum fara í bandaríska háskólaboltann þegar feril hans þar er lokið. Karfan hitti Thor og spurði hann út í muninn á bandarískum bolta og þeim íslenska og hvernig það hafi komið til að hann færi að spila fyrir landsliðið.