Stjarnan hefur samið við Hilmar Smára Henningsson fyrir komandi tímabil í Subway deild karla. Staðfestir félagið þetta á samfélagsmiðlum fyrr í dag.
Hilmar Smári kemur til Stjörnunnar frá Eisbaren Bremerhaven í Þýskalandi þar sem hann lék á síðustu leiktíð. Þar áður hafði hann verið á mála hjá uppeldisfélagi sínu Haukum í Subway deildinni. Þá hefur Hilmar Smári einnig verið hluti af íslenska A landsliðshópnum í síðustu verkefnum. Áður hefur Hilmar leikið fyrir Valencia á Spáni, Þór Akureyri og þá var hann leikmaður Stjörnunnar tímabilið 2021-22.
“Það er mikill fengur fyrir Stjörnuna að fá Hilmar Smára til liðs við okkur. Hann hefur sýnt mikil gæði í leik sýnum og við teljum hann fullkomið púsl í okkar lið” segir Einar Karl formaður körfuknattleiksdeildar Stjörnunnar.
“Ég er mjög spenntur fyrir komandi timabili í Garðabænum! Ég tel mig vera mjög góða viðbót inn í hópinn sem Baldur hefur nú þegar sett saman og verða háleit markmið sett fyrir veturinn” segir Hilmar Smári