Undir 18 ára lið Íslands mátti þola tap gegn Eistlandi í fyrsta leik sínum á Norðurlandamótinu í Södertalje í Svíþjóð. Liðið því tapað einum leik og eru fjórir eftir af mótinu, en næst eiga þær leik á morgun gegn Danmörku.
Fyrir leik
Í lið Ísland vantaði í dag Arnór Tristan Helgason sem er frá vegna meiðsla. Samkvæmt heimildum Körfunnar meiddist Arnór á dögunum og óvíst er hvenær hann verður aftur kominn í leik með liðinu. Ekki er þó lokað fyrir það að það verði á næstu dögum.
Í byrjunarliði Íslands í leik dagsins voru Birkir Hrafn Eyþórsson, Viktor Jónas Lúðvíksson, Magni Thor Grissom, Stefán Orri Davíðsson og Kristófer Breki Björgvinsson.
Gangur leiks
Eistneska liðið byrjaði leik dagsins af miklum krafti. Voru duglegir að sækja á körfuna og uppskáru 9 stiga forskot er fyrsti fjórðungur var á enda, 16-25. Enn bætir Eistland svo við forskot sitt í upphafi annars leikhlutans og eru komnir með 18 stiga forystu þegar liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 33-51.
Stigahæstir fyrir Ísland í fyrri hálfleiknum voru Kristófer Breki Björgvinsson og Birkir Hrafn Eyþórsson með 7 stig hvor.
Íslenska liðið gerir nokkuð vel að vinna niður forskot Eistlands í upphafi seinni hálfleiksins og eru komnir 10 stigum frá þeim þegar rúmar tvær mínútur eru eftir af þeim þriðja, 49-59. Þeir ganga svo enn frekar á lagið og koma muninum niður í sex stig fyrir lokaleikhlutann, 53-59. Leikurinn helst nokkuð jafn vel inn í fjórða leikhlutann og er munurinn enn fimm stig þegar fimm mínútur eru eftir af leiknum, 61-66. Leikurinn er gríðarlega jafn inn í brakmínúturnar, staðan 72-73 þegar rúm mínúta er eftir. Ísland náði forystunni þegar 19 sekúndur voru eftir af leiknum, 77-76. Fóru nokkuð illa að ráði sínu í sókn Eistlands þar á eftir og fengu dæmda á sig óíþróttamannslega villu, Eistland setur bæði vítin sín og þau er liðið fékk eftir að Ísland braut aftur með 8 sekúndur eftir, 77-80. Undir lokin fékk Ísland ágætis tækifæri til að jafna leikinn og senda hann í framlengingu, en allt kom fyrir ekki, Eistland vann með 2 stigum, 79-81.
Atkvæðamestir
Atkvæðamestur fyrir Ísland í leiknum var Birkir Hrafn Eyþórsson með 20 stig, 6 fráköst og 2 stolna bolta. Þá skilaði Viktor Jóna Lúðvíksson 4 stigum, 13 fráköstum, 4 stoðsendingum og Kristófer Breki Björgvinsson var með 18 stig, 4 fráköst og 4 stolna bolta.
Kjarninn
Líkt og undir 18 ára lið stúlkna gerðu drengirnir sér mikinn óleik með að grafa sér 20 stiga holu gegn Eistlandi í fyrri hálfleik. Jákvætt þó að líkt og stúlkurnar náðu þeir að grafa sig úr holunni og gera þetta að spennandi leik á lokakaflanum. Niðurstaðan þó jafn svekkjandi, annað tap fyrir Eistlandi.
Hvað svo?
Íslenska liðið á leik næst á sama tíma á morgun þriðjudag kl. 16:00 gegn Danmörku.