spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaFjölhæfur grískur framherji á nesið

Fjölhæfur grískur framherji á nesið

Álftnesingar hafa samið við Dimitrios Klonaras fyrir komandi leiktíð í Subway deild karla. Staðfestir félagið þetta með fréttatilkynningu fyrr í dag.

Dimitrios er tveggja metra grískur framherji fæddur 2001 sem kemur til Álftaness beint úr bandaríska háskólaboltanum, en hann hefur einnig verið einn af lykilmönnum yngri landsliða Grikkja. Hann átti verulega gott tímabil í annarri deild háskólaboltans (D2) á nýafstaðinni leiktíð og var meðal annars valinn í stjörnuleikinn fyrir alla D2 skóla Bandaríkjanna.

„Ég er ákaflega spenntur að hefja atvinnumannaferil minn á Álftanesi. Ég hef aldrei komið til Íslands og er nokkuð viss um að það verði ný lífsreynsla fyrir mig, hafandi búið í Grikklandi og Kaliforníu. En ég hef heyrt frábæra hluti um landið og get ekki beðið!“ segir Klonaras.

Þegar hann er spurður um hvers Álftnesingar megi vænta af honum svarar hann: „Aðdáendur liðsins munu kynnast mínum gríska anda og orku. Ég er mjög kappsamur og legg mikið á mig svo lið mitt geti unnið leiki.“

„Dimitrios er virkilega fjölhæfur leikmaður sem við teljum að muni smellpassa inn í leikstílinn okkar og leikmannahópinn. Hann hlaut frábært uppeldi í körfubolta, kemur úr sterku yngri flokka starfi í Grikklandi og hefur gert góða hluti í Bandaríkjunum síðustu fimm árin. Þetta eru sannkallaðar gleðifréttir, að hann sé orðinn Álftnesingur,“ segir Kjartan Atli Kjartansson þjálfari.

Stjörnulið og úrvalslið

Klonaras hóf háskólaferil sinn hjá California Golden Bears, í Berkeley í Kaliforníuríki. Þar lék hann í þrjú leiktímabil og lauk gráðu í hagfræði frá þessum virta skóla. Að þessum þremur árum loknum skipti hann yfir í California State East Bay, væntanlega í leit að stærra hlutverki. Lið skólans leikur í annarri deild háskólaboltans, eða Division 2. Þar var hann algjör lykilmaður í liði sem fór í undanúrslit í sínum riðli.

Klonaras var valinn í Stjörnuleik Division 2 skóla um öll Bandaríkin, en yfir 300 skólar eru í deildinni og því ljóst að samkeppnin var mikil um að komast í þennan leik. Klonaras var einnig valinn í úrvalslið síns riðils (CCAA). Tölfræði hans á leiktíðinni gefur vísbendingu um fjölhæfni hans: 15,3 stig, 7,5 fráköst, 2,8 stoðsendingar og 1,8 stolnir boltar. Hann hitti úr rúmlega 35% þriggja stiga skota sinna Hann var fjórði stigahæsti, fjórði frákastahæsti, þriðji í stolnum boltum og tíundi í stoðsendingum á meðal allra leikmanna í CCAA riðlinum.

Klonaras vakti fyrst athygli út fyrir grísk landamæri þegar hann fór á kostum með u16 ára landsliði Grikkja. Liðið vann þá B-deild Evrópumótsins sannfærandi. Þess má geta að Klonaras er jafnaldri Álftnesingsins skemmtilega, Dúa Þórs Jónssonar. Þeir mættust á þessu móti og áttu báðir flottan leik. Þrátt fyrir að mörg ár séu liðin frá þessum leik segist Klonaras enn muna eftir að hafa mætt þessum öfluga bakverði Íslands.

Klonaras lék sömuleiðis með u18 ára og u20 ára liði Grikkja, nú síðast árið 2021 þegar hann var með 7,4 stig og 5,6 fráköst í leik.

Hann lék upp alla yngri flokka með stórliði PAOK og vann þar titla í sínum árgangi. Aðeins 17 ára var hann farinn að banka á dyrnar hjá aðalliðinu áður en hann hélt út til Bandaríkjanna.

Fréttir
- Auglýsing -