spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaHöttur sterkari á lokasprettinum í Skógarseli

Höttur sterkari á lokasprettinum í Skógarseli

Höttur lagði ÍR í kvöld í Subway deild karla, 75-65. Eftir leikinn er Höttur í 8. sæti deildarinnar með 10 stig á meðan að ÍR er í 10. sætinu með 6 stig.

Fyrir leik

Bæði lið fyrir þennan leik í allra neðsta hluta töflunnar, Höttur í 9. sætinu og ÍR 10. sætinu. Leikurinn því gífurlega mikilvægur fyrir bæði lið, ekki aðeins til þess að forðast botnsæti deildarinnar, heldur einnig ef annað hvort þeirra hafði einhverja drauma um að komast í úrslitakeppnina.

Bæði lið fullskipuð fyrir leik kvöldsins, þar sem að ÍR voru meira að segja búnir að endurheimta Sigvalda Eggertsson sem hafði verið frá síðustu mánuði vegna meiðsla.

Gangur leiks

Eftir nokkuð jafnar upphafsmínútur læsa heimamenn í ÍR leiknum varnarlega um miðjan fyrsta leikhluta. Ná í framhaldi mest 12 stiga forystu í fjórðungnum, en eru 9 stigum yfir fyrir annan, 23-14. Með aukinni ákefð á báðum endum vallarins ná gestirnir að koma í veg fyrir að missa ÍR lengra frá sér. Hægt og bítandi ná þeir að vinna forskot heimamanna niður í öðrum leikhlutanum og er leikurinn í járnum undir lok fyrri hálfleiksins. Munurinn 2 stig þegar liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 40-42.

Fyrir heimamenn var Sigvaldi Eggertsson stigahæstur í fyrri hálfleiknum með 12 stig á meðan að Obie Trotter var kominn með 10 stig fyrir Hött.

Heimamenn ná svo að læsa leiknum varnarlega á upphafsmínútum seinni hálfleiksins. Fá nokkur skot til að detta fyrir sig á sóknarhelmingi vallarins og eru á nýjan leik nokkrum körfum yfir fyrir fjórða leikhlutann, 59-53. Gestirnir frá Egilsstöðum í léttum villuvandræðum í upphafi lokaleikhlutans, þar sem Obie Trotter var kominn með fjórar villur og Matej Karlovich, Gísli Hallsson og Juan Navarro allir með þrjár villur. Hjá ÍR var Hákon Örn Hjálmarsson sá eini sem var kominn með þrjár villur.

Aftur tekst Hetti að komast inn í leikinn, jafna og komast yfir á fyrstu mínútum fjórða leikhlutans, þar sem að ÍR skorar ekki körfu fyrr en um miðbygg leikhlutans, 61-62. Þeir ganga svo enn frekar á lagið og eru komnir 8 stigum yfir þegar 3 mínútur eru til leiksloka, 63-71. Undir lokin ná þeir svo að sigla frekar öruggum 10 stiga sigur í höfn, 75-65.

Atkvæðamestir

Atkvæðamestir fyrir Hött í leiknum voru Nemanja Knezevic með 12 stig, 14 fráköst og Timothy Guers með 13 stig, 9 fráköst og 5 stoðsendingar.

Fyrir ÍR var það Taylor Johns sem dró vagninn með 14 stigum og 11 fráköstum. Þá bætti Sigvaldi Eggertsson við 12 stigum.

Hvað svo?

Bæði lið eiga leik næst komandi fimmtudag 5. janúar, en þá fær Höttur lið Hauka í heimsókn og ÍR mætir Njarðvík í Ljónagryfjunni.

Tölfræði leiks

Myndasafn (væntanlegt)

Fréttir
- Auglýsing -