spot_img
HomeBónus deildinBónus deild kvennaÍslandsmeistararnir ráða þjálfara fyrir komandi tímabil

Íslandsmeistararnir ráða þjálfara fyrir komandi tímabil

Valur hefur samið við Jamil Abiad fyrir komandi tímabil í Subway deild kvenna, en honum til aðstoðar verður Margrét Ósk Einarsdóttir. Staðfestir félagið þetta á samfélagsmiðlum fyrr í dag. Jamil hefur verið aðstoðarþjálfari Vals síðustu tvö tímabil, en Margrét hefur verið leikmaður liðsins. Hún hefur þó haldgóða reynslu af þjálfun bæði yngri flokka og yngri landsliða. Við störfunum taka þau af Hjalta Þór Vilhjálmssyni, sem var með liðið á yfirstandandi tímabili, en datt út í átta liða úrslitum úrslitakeppninnar gegn Njarðvík, en hann sagði starfi sínu sjálfur lausu eftir að tímabilið kláraðist.

Jamil: „Ég er mjög spenntur að fá þetta tækifæri og að vinna með Möggu. Mér líður eins og heima hjá mér í Val og það er frábært að fá að halda hér áfram og fá að vinna með stelpunum sem hafa undanfarin ár verið flaggskip körfunnar í Val.“

Margrét Ósk: „Spennandi að stíga þetta skref í þjálfun, sérstaklega uppeldisfélagi mínu og frábært tækifæri að fá að vinna með góðum þjálfara eins og Jamil.“

Fréttir
- Auglýsing -