spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaHöttur verndaði heimavöllinn gegn Breiðablik

Höttur verndaði heimavöllinn gegn Breiðablik

Höttur tók á móti Breiðablik í MVA-höllinni á Egilsstöðum í kvöld í Subway deild karla. Heimamenn höfðu fram að þessu unnið þrjá leiki og voru í botnbaráttunni á meðan að Blikar höfðu unnið 7 leiki og voru í baráttunni um toppsætið við Keflavík og Val.

Leikurinn var jafn framan af en Hattarmenn náðu aðeins að síga fram úr Blikum í fyrsta leikhluta, 24-18. Góð vörn heimamanna hélt gestunum í aðeins 8 stigum í öðrum leikhlutanum og leikurinn vannst í raun þar, en Höttur leiddi 47-26 í hálfleik. Seinni hálfleikurinn var nokkuð jafn en lærisveinar Viðars Arnar hafa örugglega ekki þorað að slaka á fyrr en lokaflautan gall, lokastaða 91-69.

Timothy Guers leiddi heimaliðið með 21 stig, 16 fráköst og 5 stoðsendingar. 16 fráköst verður að teljast gott fyrir bakvörð. Hjá Breiðablik var Everage Richardson skástur þó hann hafi spilað langt undir sinni eigin getu. Hann skoraði 19 stig og var með 12 í framlag, sem er næst versti leikur hans á tímabilinu (sá versti var gegn Tindastóli, 10 stig).

Næsti leikur Hattar er 29. desember á útivelli gegn ÍR, en kvöldið eftir það, 30. desember, taka Blikar á móti Haukum í Smáranum í Kópavogi.

Tölfræði leiks

Fréttir
- Auglýsing -