…skrifað í skýin að Grindvíkingar verði Íslandsmeistarar? Mögulega, en það var of heiðskírt og fagurt yfir að líta að Hlíðarenda í fyrsta leik. Valsmenn leiða úrslitaeinvígið 1-0 í þessum skrifuðum en í kvöld fór fram leikur 2 í Smáranum! Ekki von á neinu öðru en geggjuðum leik – kíkjum í Kúluna fyrir leik svona til að róa taugarnar…
Kúlan:
,,Bíddu, hefur þú ekkert verið að fylgjast með? Grindavík tapar ekki í Smáranum, ekki séns. Frekar öruggur Gulur sigur að lokum, 93-85!“
Byrjunarlið
Grindavík: Basile, Breki, Kane, Óli, Mortensen
Valur: Tamulis, Kiddi, Aron, Badmus, Kristó
Gangur leiksins
Undirritaður upplifði nístandi spennu í húsinu og minna heyrðist í Grindjánum til að byrja með en búast mátti við. Spennan bjó kannski svolítið í liðinu líka sem var öllu verra. Valsarar voru eitthvað nær því að vera komnir til að hafa gaman og byrjuðu líka miklu betur og komust í 3-10, m.a. með þristi frá Badmus. Kane var bjargvætturinn Laufey fyrir heimamenn og fékk körfu góða og setti víti í gríð og erg og hélt Grindvíkingum inn í þessu. Valsarar skoruðu að því er virtist að vild og leiddu 20-29 að fyrsta fjórðungi loknum.
Hvert mannsbarn gat séð að heimamenn þurftu áþreifanlega á því að halda að þétta vörnina, helst ekki seinna en strax. Það gerðist ekki, a.m.k. ekki strax. Eftir þrjár leikmínútur í öðrum fjórðungi var ENGINN í öllu húsinu með jafn mikið persónulegt rými og Aron Booker sem þakkaði fyrir með þristi. Jóhann tók þá leikhlé, staðan 28-40 og ólga í gula hafinu. Hlutirnir skánuðu ekki mikið varnarlega hjá heimamönnum en liðið tók í það minnsta upp á því að setja nokkur skot niður. Meistari Óli Óla á allt til að lækna kvíða og setti 2 þrista með stuttu millibili og minnkaði muninn í 39-44. Þá voru um 4 mínútur til hálfleiks, menn aðeins að hjarna við í stúkunni, og Finnur tók leikhlé. Grindvíkingar voru farnir að ná aðeins áttum varnarlega þegar þarna var komið við sögu og Asisse minnkaði muninn í 44-46 með tröllatroði eftir stolinn bolta þegar 2 mínútur lifðu af fyrri hálfleik. Valsarar áttu hins vegar lokamínúturnar, unnu þær 1-6 og leiddu 45-52 í hálfleik.
Það blés ekki byrlega í byrjun þriðja leikhluta fyrir heimamenn. Tamulis grísaði niður neyðarþristi spjaldið ofan í nánast frá miðju og setti í næstu sókn annan, öllu hefðbundnari. Valsmenn leiddu þá 47-61 og nú reyndi á heimamenn að halda haus. Þeir gerðu það og það var einkum batnandi varnarleikur sem klóraði þá í rétta átt. Þegar 2 og hálf voru eftir af þriðja minnkaði Basile muninn í 3 með þristi, 66-69, galopinn leikur! Hlíðarendapiltar enduðu leikhlutann hins vegar vel rétt eins og í öðrum leikhluta og leiddu enn með 7 að honum loknum, staðan 66-73.
Það hafa fleiri en undirritaður hugsað með sér í leikhlutaskiptunum hvort heimamenn myndu nokkurn tímann ná að jafna þennan leik. Heimamenn færðust nær og nær og Óli fékk tækifæri í stöðunni 77-78 að koma sínum mönnum yfir í fyrsta skipti í leiknum en þristurinn hristist upp úr. Kane jafnaði hins vegar leikinn af línunni í 80-80 þegar góðar fjórar mínútur voru eftir og skömmu síðar henti töffarinn þristi niður, 4:13 eftir, staðan 83-80 og loks allt kengkrossbilað í stúkunni!! Aron Booker jafnaði strax fyrir gestina með körfu góðri og víti, spennan nánast óbærileg. Kane og Badmus gengu í framhaldi af þessu til einvígis og skiptust á að skora fyrir sín lið. Einvígið fór jafntefli 6-6 og það þurfti danskan hornsnúð frá Mortensen til að skera úr um þetta – þá voru einungis 20 sekúndur eftir af leiknum og heimamenn yfir 92-89. Vörnin hélt og Valur Orri smellti ískaldur niður víti þegar nokkrar sekúndur lifðu leiks og tryggði Grindvíkingum 93-89 sigur. Þvílíkur leikur!
Menn leiksins
DeAndre Kane var augsljóslega maður leiksins, hann henti niður 35 stigum, tók 12 fráköst og gaf 3 stoðsendingar. Þvílíkur töffari. Með batnandi varnarleik og molum frá ýmsum öðrum hefði liðið þó auðvitað aldrei unnið þennan leik.
Tamulis átti flottan leik fyrir Valsara í kvöld, setti 21 stig í fáum skotum og gaf 6 stoðsendingar. Í raun átti Valsliðið allt ágætan leik í kvöld, allt byrjunarliðið setti 10+ stig.
Kjarninn
Fyrstu 35 leikmínúturnar eða svo í þessum leik hljóta að hafa tekið á taugarnar hjá stuðningsmönnum Grindvíkinga. Það var eins og þeim væri bara sköpuð þau örlög að jafna ekki leikinn! En það er yfirtöffari í liði þeirra…verða þeir Íslandsmeistarar vegna þess?
Valsarar geta nagað sig í handarbökin eftir þennan leik. Kristófer Acox tók spjallið við Körfuna eftir leik og talaði eins og alvöru sigurvegari. Þar er líka töffari á ferð. Hann sagði einfaldlega að þeir gætu sjálfum sér um kennt að hafa kastað þessu frá sér í lokin. Kristó og félagar mæta án nokkurs vafa tilbúnir í slaginn í næsta leik að Hlíðarenda.
Myndasafn (væntanlegt)