Snæfell hefur samið við Khalyl Waters fyrir komandi leiktíð í fyrstu deild karla.
Khalyl er 25 ára bandarískur framherji sem kemur til liðsins frá Finnlandi. Þar lék hann fyrir Honka í efstu deild áður en hann færði sig til Oulun í fyrstu deildinni þar sem hann skilaði 22 stigum og 7 fráköstum að meðaltali í leik á síðustu leiktíð. Eftir að tímabilið kláraðist þar hefur hann verið að leika fyrir Jacksonville 95ers í bandarísku TBL deildinni.
Gunnlaugur þjálfari liðsins sagðist ánægður með nýjustu viðbótina í liðið í færslu félagsins á samfélagsmniðlum og er spenntur fyrir framhaldinu: „Khalyl er frábær varnarlega og getur dekkað margar stöður á vellinum og sóknarlega getur hann skorað í öllum regnbogans litum. Khalyl er mikill íþróttamaður og vonumst við til að hann muni hjálpa okkur að taka næsta skref í vegferðinni sem við erum á.“