Keflavík lagði Njarðvík í Blue höllinni í kvöld í fyrsta leik úrslitaeinvígis liðanna í Subway deild kvenna. Keflavík því með yfirhöndina í einvíginu 1-0, en vinna þarf þrjá leiki til að tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn.
Fyrir leik
Keflavík og Njarðvík höfðu í fimm skipti mæst á tímabilinu og hafði Keflavík sigur í öll fimm skiptin. Fjögur þeirra voru í deildinni og þá sló Keflavík lið Njarðvíkur út úr bikarnum.
Heimavöllur Keflavíkur Blue höllin verið gífurlega sterkur fyrir þær á þessu tímabili, þar sem liðið hafði ekki enn tapað leik á honum í deild, bikar eða úrslitakeppni.
Gangur leiks
Það voru gestirnir úr Njarðvík sem hófu leik kvöldsins betur. Setja fyrstu sex stig leiksins á töfluna og virðast ná nokkuð að nýta sér fjarveru Birnu Valgerðar og hæðarleysi Keflavíkur. Heimakonur eru þó fljótar að ná áttum. Vinna niður forskotið og eru komnar með eins stig forystu þegar sá fyrsti er á enda, 15-14. Undir lok hálfleiksins skiptast liðin á snöggum áhlaupum, þar sem Njarðvík eru oftar en ekki skrefinu á undan, en þegar liðin halda til búningsherbergja í hálfleik eru þær fjórum stigum yfir, 32-36.
Stigahæst heimakvenna í fyrri hálfleiknum var Sara Rún Hinriksdóttir með 9 stig á meðan Selena Lott var komin með 10 stig fyrir Njarðvík.
Leikar haldast nokkuð jafnir inn í seinni hálfleikinn, en áfram er það Njarðvík sem nær að halda í forystuna. Með góðu áhlaupi í seinni hluta þess þriðja nær Njarðvík aðeins að byggja upp forskot sitt, þar sem Selena Lott setur nokkrar laglegar körfur og eru þær með sína mestu forystu í leiknum til þessa, 10 stig, þegar rúmar tvær mínútur eru eftir af fjórðungnum, 43-53. Hinumegin á vellinum svara Daniela Wallen og Sara Rún því og er munurinn 5 stig fyrir lokaleikhlutann, 52-57. Njarðvík heldur forskotinu inn í fjórða leikhlutann og eru enn fjórum stigum á undan þegar 4 mínútur eru eftir, 62-66. Thelma Dís Ágústsdóttir setur þá þrist í þremur sóknum í röð fyrir Keflavík og nær að skjóta þeim í forystu þegar tæpar tvær eru til leiksloka, 71-69. Selena Lott jafnar leikinn fyrir Njarðvík, 71-71. Með rúmar 20 sekúndur eftir fer Keflavík nokkuð illa að ráði sínu og fær Njarðvík lokasóknina. Í henni ná þær hinsvegar ekki að koma upp skoti og fer svo að framlengja þarf leikinn, 71-71.
Keflavík tekur forystuna snemma í framlengingunni með körfum frá Söru Rún og Önnu Ingunni Svansdóttur. Njarðvík berst þó til baka og er leikurinn aftur jafn þegar 30 sekúndur eru eftir, 78-78. Keflavík missir boltann og fær Njarðvík aftur tækifæri í lok framlengingar til að vinna leikinn með tæpar 20 sekúndur á klukkunni. Líkt og í venjulegum leiktíma má segja að þær nái varla skoti á körfuna í þeirri sókn og því þarf aftur að framlengja, 78-78.
Í upphafi seinni framlengingarinnar fer Thelma Dís aftur af stað að setja þrista og kemur forystu Keflavíkur í 8 stig þegar tæpar þrjár mínútur eru eftir af leiknum, 88-80. Njarðvík tekur leikhlé og Thelma heldur bara áfram að setja þrista eftir það. Undir lokin heldur þessi forysta sem heimakonur byggðu upp og þær sigra að lokum 94-91.
Atkvæðamestar
Atkvæðamestar í liði Keflavíkur í kvöld voru Thelma Dís Ágústsdóttir með 29 stig, 4 fráköst og Daniela Wallen með 19 stig, 17 fráköst og 5 stoðsendingar.
Fyrir Njarðvík var það Selena Lott sem dró vagninn með 39 stigum og 14 fráköstum. Henni næst var Emilie Hesseldal með 15 stig, 20 fráköst og 7 stoðsendingar.
Hvað svo?
Næsti leikur liðanna fer fram komandi sunnudag 19. maí í Ljónagryfjunni í Njarðvík.