Það eru oddaleikir út um allar trissur þessa dagana landsmönnum til afþreyingar og gleði! Einn slíkur fór fram að Hlíðarenda í kvöld eftir að Njarðvíkingar jöfnuðu seríuna í 2-2 með grjóthörðum sigri í Ljónagryfjunni síðastliðið laugardagskvöld. Til að fagna þessari veislu henti Kúlan í stöku!
Kúlan:
Oddaleikir út um allt
þú skapar eigin heppni
í hjarta heitt en hausnum kalt
svo haldir áfram keppni.
Heimamenn verða aðeins svalari undir lokin og klára þetta, 71-65!
Byrjunarlið
Valur: Tamulis, Kiddi, Aron, Badmus, Kristó
Njarðvík: Chaz, Þorri, Dwayne, Mario, Milka
Gangur leiksins
Gestirnir virtust ekki vera alveg tilbúnir í átökin fyrstu mínúturnar. Njarðvíkingar gerðu sig seka um hræðilega tapaða bolta og týndu Kidda Páls í horninu sem kostaði auðvitað 3 stig. Eftir þrjár og hálfa leiddu Valsarar 15-6 og Benni blés til leikhlés. Það hafði tilætluð áhrif og einni leikmínútu síðar tók Finnur leikhlé í stöðunni 15-13. Leikurinn náði meira jafnvægi eftir það, liðin skiptust á að raða niður stigum og það voru gestirnir sem leiddu eftir einn, 27-29. Strax þarna var leikurinn búinn að gefa meira en þriðji leikur seríunnar í heild sinni!
Njarðvíkingar héldu frumkvæðinu allan annan leikhlutann en leiddu þó aldrei með meira en 7 stigum. Kristó kveikti vel í kofanum með tröllatroði undir lok leikhlutans og minnkaði muninn í 2 stig, 44-46. Gestirnir stálu hins vegar stemmningunni aftur yfir til sín fyrir pásuna með 2 stigum, stolnum bolta og sniðskoti á klukkunni! Klaufalegt hjá Val en aftur á móti gott nesti inn í klefa fyrir gestina – staðan 44-50.
Lítið var skorað fyrstu mínútur seinni hálfleiks. Tamulis braut ísinn með sínum fyrstu stigum í leiknum og eftir um 3 mínútna leik ákvað Benni að taka leikhlé í stöðunni 48-50. Um miðjan leikhlutann setti Chaz niður þrist fyrir sína menn en hann hafði verið ansi kaldur fram að því og kom sínum mönnum í 50-59. Valsarar svöruðu fyrir sig í framhaldinu, einkum varnarlega, og breyttu stöðunni í 60-62. Aftur endaði leikhlutinn hins vegar ekki vel fyrir heimamenn, Dwayne henti niður flautuþristi og enn voru Njarðvíkingar með nefið á undan, 60-65.
Valsarar höfðu verið að elta meira og minna allan leikinn og það hélt áfram fram eftir fjórða leikhluta. Njarðvíkingar virtust alltaf hafa svör og þegar 5:20 voru eftir af leiknum henti Chaz í rýting og kom Ljónunum í 67-78! Finnur tók leikhlé og undirritaður sá ekki betur en nú þyrfti ekkert minna en töfraorðin. Þau hafa sennilega hljómað eitthvað á þessa leið; ,,Strákar! Nú skulum við ekkert vera að leyfa þeim að skora í svona kannski góðar 4 mínútur!“ Og það gekk eftir, heimamenn mjötluðu stig smátt og smátt á töfluna og Badmus setti sinn fyrsta þrist síðan einhvern tímann í janúar og Valsmenn voru komnir yfir 80-78 þegar 1:40 voru eftir! 15-1 áhlaup hjá Val, Kernkraftinn botnaður í græjunum og allt gersamlega sturlað í húsinu. Segja má að sóknarfrákast frá Kristó hafi klárað leikinn, gaf Kidda annan séns á að klára leikinn á línunni og þrátt fyrir góða baráttu Njarðvíkinga í blálokin enduðu leikar með 85-82 stórkostlegum sigri Vals í frábærum leik!
Menn leiksins
Það er bara oft erfitt að taka einn út fyrir sviga í þessu Valsliði! Kiddi var frábær, setti 22 stig og tók 9 fráköst og gaf 3 stoðsendingar. Frank Aron Booker var líka frábær þó hann hafi ekki sett nema 4 stig í kvöld. Geggjaður karaktersigur hjá Völsurum.
Dwayne var bestur gestanna með 26 stig, 5 fráköst og 4 stoðsendingar.
Kjarninn
Grindvíkingar ,,eiga“ að taka titilinn þetta tímabilið, það er svolítið skrifað í skýin ekki satt? EN Valssagan er bara líka nokkuð heillandi; meiðsli hafa sett strik í reikninginn, þau eru augljós vandamálin sóknarlega en ótrúlegur varnarleikur kemur á móti. Stemmningin er greinilega góð að Hlíðarenda og samkvæmt Aron Booker eiga Valsmenn að sjálfsögðu séns á móti Grindjánum. Það stefnir í frábæra úrslitaseríu!
Við þökkum Benna og Njarðvíkingum fyrir frábæra skemmtun í vetur – þeir munu vafalaust mæta ferskir á næsta tímabili.
Viðtöl birt upphaflega á vef Víkurfrétta