Fyrrum leikmaður Grindavíkur og íslenska landsliðsins Helgi Jónas Guðfinnsson hefur samið við nýliða Álftaness í Subway deildinni um að vera hluti af þjálfaraliði þeirra á komandi tímabili. Helgi Jónas hannaði sitt eigið þjálfunarkerfi sem kallast Metabolic og hefur notið mikilla vinsælda um allt land. Auk þess hefur hann skrifað bækur sem komið hafa út í Bandaríkjunum og fjalla um líkamsþjálfun.
Helgi Jónas er eitt af þekktari nöfnum íslensks körfubolta. Hann lék allan sinn feril hér á landi með Grindavík en fór í atvinnumennsku til Hollands og Belgíu í kringum aldamótin. Með Grindavík varð hann Íslandsmeistari 1996 og þrisvar sinnum bikarmeistari. Hann var valinn besti leikmaður tímabilsins 1998 og 2003, besti ungi leikmaðurinn 1993 og hlaut nafnbótina körfuboltakarl ársins 1998 (Anna María Sveinsdóttir var þá valin körfboltakona ársins).
Helgi Jónas fór út í þjálfun að ferlinum loknum. Hann leiddi Grindvíkinga til bikarmeistaratitils á sinni fyrstu leiktíð sem þjálfari, árið 2011. Tímabilið eftir varð liðið svo Íslandsmeistari undir hans stjórn og var hann valinn þjálfari ársins.
„Að fá Helga Jónas inn í starfið okkar er mikill fengur. Hann er einn af þeim sem maður hefur alltaf litið upp til í íslenskum körfubolta. Var framúrskarandi leikmaður og náði svo að miðla þekkingu sinni virkilega vel sem þjálfari eins og sést á árangrinum sem Grindavík náði undir hans stjórn. Maður finnur strax fyrir því hversu skipulagður hann er og hversu djúpa þekkingu hann hefur á leiknum. Að fá að vinna með honum og Skarphéðni Ingasyni er mikill heiður og fengur fyrir þjálfara sem er að stíga sín fyrstu skref í þessari deild,“ segir Kjartan Atli þjálfari.