spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaTilkynning frá ÍTK vegna meiðsla Remy Martin "Bætt við óþarfa meiðslaáhættu vegna...

Tilkynning frá ÍTK vegna meiðsla Remy Martin “Bætt við óþarfa meiðslaáhættu vegna auglýsinga á velli”

Hagsmunasamtökin Íslenskur toppkörfubolti sendu frá sér fréttatilkynningu nú í kvöld er varðar meiðsl Remy Martin leikmanns Keflavíkur í gær. Remy sleit hásin í fyrri hálfleik fyrsta leik undanúrslitaeinvígis Keflavíkur og Grindavíkur eftir að hafa runnið á auglýsingu sem var á gólfi keppnisvallarins í Smáranum í Kópavogi.

Tilkynningu ÍTK má lesa í heild hér fyrir neðan, en í henni er lagt til að slíkar auglýsingar verði bannaðar frá og með næsta tímabili til þess að koma í veg fyrir að leikmenn geti meiðst á þeim. Þar sem tilvik gærkvöldsins var alls ekki það fyrsta sem komið hefur upp vegna téðra auglýsinga og er Smárinn alls ekki eini leikvöllurinn sem hefur slíkar auglýsingar á keppnisgólfi sínu.

Stjórn ÍTK

Stjórn Íslensks Toppkörfubolta (ÍTK) leggur til að allar auglýsingar sem límdar eru á gólf körfuknattleiksvalla innanhúss verði bannaðar frá og með næsta tímabili. ÍTK telur að nóg sé komið af slæmum meiðslum sem rekja má beint til slíkra auglýsinga en áferðin á þeim gerir þær vanalega mun sleipari viðkomu en leikvöllurinn sjálfur. Í gær lenti einn besti leikmaður í deildinni og lykilleikmaður Keflavíkur í því að renna á slíkri auglýsingu með þeim afleiðingum að hann sleit hásin og verður ekki meira með á þessu tímabili. Þetta er ekki fyrsta dæmið um leikmann sem meiðist vegna þess í stórleik en vonandi það síðasta. Það er næg meiðslahætta í körfubolta fyrir svo ekki sé bætt við óþarfa meiðslaáhættu vegna auglýsinga á velli. Slík meiðsli eins og Remy Martin varð fyrir í gær getur hæglega endað feril þessa unga leikmanns. 

 Virðingarfyllst Stjórn ÍTK

Fréttir
- Auglýsing -