spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaKeflvíkingar koma askvaðandi inn í undanúrslitin

Keflvíkingar koma askvaðandi inn í undanúrslitin

Álftnesingar færðust nær því að leggja Keflavík í Keflavík í síðasta leik en þurftu að sætta sig við ósigur 88-84. Allt er þegar þrennt er segja menn en forsendan fyrir þriðju tilraun er sú að sigra í Forsetahöllinni í kvöld og jafna seríuna í 2-2. Ljóst er að Álftnesingar munu leggja áherslu á að hemja Remy Martin líkt og í síðustu leikjum og helst enn betur en áður. Mun það ganga og mun það duga, Kúla góð?

Kúlan: ,,Það verður lok, lok og læs og allt í stáli í Forsetahöllinni! Naumt verður það, 79-77. Oddaleikur í Kef-City framundan!“

Byrjunarlið

Álftanes: Wilson, Haukur, Dúi, Hössi, Ville

Keflavík: Dolezaj, Jaka, Martin, Siggi, Oman

Gangur leiksins

Kúlan hefur lag á því að koma með þversagnarkennda spádóma og leikur kvöldsins var skýrt dæmi um það. Jaka opnaði leikinn með tröllatroði, Martin fékk svo gefins sniðskot og það var allt opið, enn meira opið og ofaní hjá gestunum. Eftir rúmlega 6 mínútna leik var 10 stiga múrinn risinn, staðan 9-21 og Kjartan blés til leikhlés. Það hafði ekki mikið að segja, Jaka virtist geta skorað að vild alls staðar af vellinum og Maric kom heitur af bekknum. Gestirnir úr Bítlabænum leiddu 14-28 að fyrsta leikhluta liðnum, búnir að skora 22 stigum meira í fyrsta leikhluta en síðast í Forsetahöllinni!

Dolezaj var vel tengdur eins og flestir hjá gestunum og opnaði annan leikhluta með þristi. Skömmu síðar stóðu leikar 17-37 og Kjartan tók annað leikhlé. Liðin skiptust á körfum næstu mínúturnar og þegar 3 mínútur voru til leikhlés var enn 20 stiga munur, 31-51. Eysteinn Bjarni blés þá smá lífi í sína menn, stal boltum ítrekað og smellti í þrist hinum megin og minnkaði muninn í 16 stig, 37-53. Á allan hátt mikilvægt fyrir heimamenn að laga stöðuna fyrir hlé en því miður reyndist þessi sprettur Álftnesinga þeirra besti í öllum leiknum! Maric setti stöðuna í 39-58 með þristi rétt fyrir hálfleik eftir glæsilega stoðsendingu frá Martin.

Drengirnir frá Sunny-Kef slökuðu ekkert á klónni í byrjun seinni hálfleiks og settu fyrstu 5 stig þriðja leikhluta. Þegar 5:49 voru eftir af leikhlutanum var munurinn orðinn heil 26 stig, 46-72 og Álftnesingar tóku leikhlé. Ef finna mátti einhvern vonarneista einhvers staðar blés Martin á hann og lék við hvurn sinn fingur næstu mínúturnar. Eftir 30 mínútna leik var staðan 60-91 og úrslit ráðin.

Heimamenn settu fyrstu 7 stig fjórða leikhluta en ekki sást högg á vatni. Gestirnir tóku aftur upp á því að setja allt niður og gengu endanlega frá leiknum. Ruslamínúturnar urðu tæplega 3 talsins og þær nýtti Jakob Magnússon manna best, setti öll þrjú skotin sín niður sem voru millimetrum frá því að vera 9 stiga virði. Lokatölur urðu 85-114 í frábærum stórsigri piltanna frá Sunny-Kef.

Menn leiksins

Jaka Brodnik var með hausinn einstaklega vel skrúfaðan á að þessu sinni, var stigahæstur á vellinum með 21 stig og klikkaði einungis á einu skoti! Remy Martin var einnig frábær í kvöld, lauk leik með 18 stig og gaf 12 stoðsendingar. Liðið í heild átti góðan leik og margir lögðu í púkkið.

Wilson var atkvæðamestur heimamanna með 16 stig og tók 6 fráköst.  

Kjarninn

Segja má að Keflavíkurliðið hafi mætt á röngunni í leik 2 í Forsetahöllinni en á réttunni í kvöld. Þriggja stiga skotnýting liðsins var 60% eftir þrjá leikhluta og endaði í 54%, í heildina var skotnýtingin 64%! Nánast svart og hvítt. Það liggur fyrir að Grindvíkingar verða andstæðingar Keflvíkinga í undanúrslitum og ljóst að liðið þarf að vera meira og minna á réttunni ætli það sér einhverja hluti gegn fljúgandi Grindjánum.

Fyrir nýliðana er engin skömm að því að falla úr leik gegn þessu Keflavíkurliði. Vissulega var leikur kvöldsins leiðinlega mikið burst fyrir stuðningsmenn liðsins og reyndar alla hlutlausa áhorfendur en körfubolti er ekki fjölbragðaglíma. Kjartan og Álftnesingar allir geta gengið stoltir frá borði og notið þess að fylgjast með restinni af úrslitakeppninni.

Tölfræði leiks

Myndasafn (væntanlegt)

Fréttir
- Auglýsing -