Hamar og Hrunamenn mættust í kvöld í Frystikistunni í Hveragerði. Í upphafi leit út fyrir að leikurinn yrði jafn og spennandi. Liðin fylgdust að þar til langt var liðið á 1. fjórðung. Þá sigldu Hamarsmenn fram úr og bókstaflegu keyrðu yfir lánlausa sveitamennina. Í hálfleik var forysta Hamars komin í 19 stig.
Leikstjórnandinn Jose Medina var í strangri gæslu Friðriks Heiðars Vignissonar og komst ekki auðveldlega í skot eða árásir á körfuna en Jose er reyndur og úrræðagóður leikmaður og fann aðrar leiðir til að þjóna liði sínu. Hann leitaði uppi leikstöður sem opnuðu leiðir fyrir liðsfélaga hans. Björn Ásgeir naut þessarar þjónustu einkar vel og nýtti sér hana, bæði til að skora sjálfur en líka til þess að taka leikinn í eigin hendur. Björn réðst ítrakað að körfunni og tókst í 91% tilrauna að koma boltanum ofan í hana þannig. Hann var auk þess með 67% þriggja stiga nýtingu og spilaði ljómandi fína vörn. Stórleikur hjá þessum skemmtilega leikmanni úr Hveragerði. Ragnar Nathanaelsson var einnig drjúgur fyrir heimamenn með 22 fráköst og 32 framlagspunkta.
Hrunamenn voru einstaklega lánlausir í skotum sínum. Nýting þeirra var innan við 50% hvort sem um var að ræða 3ja stiga skot, 2ja stiga skot eða vítaskot. Eftir að Hamar tók leikinn í sínar hendur undir lok 1. leikhlutans átti liðið aldrei möguleika á endurkomu. Hamar vann verðskuldaðan sigur 108 -76.