spot_img

Martröð í Síkinu

Fyrir leik

Íslandsmeistarar Tindastóls tóku á móti Grindavík í öðrum leik liðanna í 8-liða úrslitum Subway deildar karla í körfuknattleik í Síkinu á Sauðárkróki í kvöld

Grindvíkingar höfðu rústað fyrri leiknum í Smáranum og Stólar hugðu á hefndir. DeAndre Kane var ekki með gestunum vegna leikbanns og margir voru á því að nú væri komið að Tindastól að taka leikinn í sínar hendur og koma sér þannig inn í einvígið.

Leikurinn

Eins og í Smáranum hófst leikurinn nokkuð jafnt og það var greinilega mikill hiti í mönnum. Stólar lögðu greinilega mikla áherslu á að hægja á Basile og Arnar Björnsson var á honum eins og mý á mykjuskán fyrstu mínúturnar. Það dugði þó skammt því aðrir stigu einfaldlega upp hjá gestunum og þá ekki síst herra Grindavík, Ólafur Ólafsson. Frá byrjun var ljóst að þrátt fyrir hitann voru gestirnir með hausinn rétt stilltan í átökin og þá ekki síður miðið en það virtist sama hverju þeir hentu upp, allt fór niður.  Staðan eftir fyrsta leikhluta var 22-31.

Gestirnir byrjuðu annan leikhluta með 13-1 kafla og orðið ljóst þá þegar í hvað stefndi. Heimamenn voru algerlega slegnir út af laginu og voru sem höfuðlaus her bæði innan vallar sem utan. Engan leiðtoga var að finna inni á vellinum og ekki heldur á bekknum þar sem þjálfarateymið virkaði bara alls ekki. Grindvíkingar gengu á lagið og spóluðu yfir lánlaust lið Stólanna, staðan 41-64 í hálfleik, tölur sem varla hafa sést í Síkinu.

Miðað við lætin í fyrri hálfleik gerðist nánast ekkert í þriðja leikhluta. Stólarnir reyndu en lentu einfaldlega alltaf á vegg þar sem Grindjánar gáfu ekkert eftir Staðan 56-88 fyrir lokafjórðunginn.

Heimamenn í Tindastól náðu spretti í byrjun lokaleikhlutans, settu 18 stig í röð og hleyptu smávegis spennu í leikinn, það voru liðnar rúmar 6 mínútur áður en Valur setti fyrstu stig Grindvíkinga í fjórðungnum. En þá líka sprakk blaðran hjá heimamönnum og þrátt fyrir mörg tækifæri þá náðu þeir aldrei að koma muninum niður fyrir 10 stigin. Þristur frá Kristófer Breka þegar tvær og hálf mínúta voru eftir slökkti endanlega í Stólum og sigur Grindvíkinga var ekki í hættu. Lokatölur 88-99 og líklegt að sópurinn fari á loft í Smáranum í þriðja leik.

Tölfræði leiksins

Myndasafn

Atkvæðamestir

Hjá Stólum var Callum Lawson stigahæstur með 19 stig og 9 fráköst að auki en sóknarleikurinn var áfram mjög stirður hjá meisturunum. Basile endaði með 26 stig fyrir gestina en Óli Óla var maður leiksins með tröllatvennu, 24 stig og 12 fráköst. Stefnir í mjög vandræðalega titilvörn hjá Tindastól.

Viðtöl


Ólafur Ólafsson
Svavar Atli Birgisson
Jóhann Þór Ólafsson
Pétur Rúnar Birgisson

Umfjöllun / Hjalti Árna

Fréttir
- Auglýsing -