spot_img
HomeBikarkeppniÞór Akureyri í úrslit bikarkeppninnar eftir sigur gegn Grindavík - Voru þar...

Þór Akureyri í úrslit bikarkeppninnar eftir sigur gegn Grindavík – Voru þar síðast árið 1975

Þór Akureyri tryggði sig í kvöld í úrslit VÍS bikarkeppninnar með sigri gegn Grindavík í undanúrslitum. Þór mun því mæta liði Keflavíkur í úrslitaleik á laugardaginn, en Keflavík lagði Njarðvík fyrr í kvöld í hinni undanúrslitaviðureigninni. Úrslitaleikurinn mun vera sá fyrsti sem Þór fer í síðan 1975, en þá unnu þær sinn eina titil, með sigri gegn KR, 20-16.

Fyrir leik

Gengi liðanna nokkuð ólík í deildinni á tímabilinu. Grindavík verið í harðri baráttu við Njarðvík um annað sæti A deildarinnar á meðan að Þór er sem stendur í 2. sæti B hlutans. Innbyrðis höfðu liðin í tvígang mæst í deildinni og hafði Grindavík nokkuð öruggan sigur í báðum leikjum, nú síðast í lok janúar, 72-85, á Akureyri.

Gangur leiks

Leikurinn var nokkuð jafn á upphafsmínútunum þar sem liðin skiptust á snöggum áhlaupum og ekki mátti sjá hvort liðið ætlaði sér að taka völdin á leiknum. Þó er það Grindavík sem er þremur stigum yfir að fyrsta leikhluta loknum, 25-28. Áfram var mikið jafnvægi á leiknum vel inn í 2. leikhluta. Sóknarlega var Þór að ná að dreifa álaginu á meðan hjá Grindavík virtist mikið mæða á Sarah Mortensen, Danielle Rodrigues og Eve Braslis. Um miðbygg fjórðungsins nær Þór sterku 17-0 áhlaupi og eru komnar með yfirhöndina í leiknum þegar 2 mínútur eru til hálfleiks, 42-31. Þá forystu nær Þór að fara með til búningsherbergja, 48-37.

Stigahæst Grinvíkinga í fyrri hálfleiknum var Sarah Mortensen með 15 stig á meðan að Madison Sutton var komin með 15 stig fyrir Þór.

Grindavíkurkonur mæta mun betur til leiks inn í seinni hálfleikinn heldur en þær höfðu endað þann fyrri og ná þær hægt og rólega að vinna á forskoti Þórs í seinni hluta þriðja leikhlutans. Virkilega erfiður leikhluti fyrir Þór miðað við hvernig fyrri hálfleikurinn hafði verið hjá þeim. Halda þó í einhverja baráttu, halda áfram að frákasta betur en Grindavík og eru enn 6 stigum á undan fyrir lokaleikhlutann, 64-58.

Grindvíkingar gera sig enn líklegar til að vinna sig inn í leikinn í upphafi þess fjórða, en með stórum körfum frá Madison Sutton og ungstirninu Emmu Karólínu Snæbjarnardóttur nær Þór að halda forystunni fram á lokamínúturnar, staðan 76-67 þegar 4 mínútur eru til leiksloka. Undir lokin gera Þórskonur helvíti vel að loka varnarlega og sigla að lokum gífurlega sterkum sigur í höfn, 79-75.

Atkvæðamestar

Atkvæðamest í liði Þórs í leiknum var Lore Devos með 31 stig og 12 fráköst. Henni næst var Madison Sutton með 17 stig, 18 fráköst og 7 stoðsendingar.

Fyrir Grindavík var Danielle Rodriguez atkvæðamest með 27 stig, 12 fráköst og Sarah Mortensen bætti við 23 stigum og 5 fráköstum.

Hvað svo?

Þór mætir Keflavík komandi laugardag 23. mars í úrslitum VÍS bikarkeppninnar.

Tölfræði leiks

Myndasafn (væntanlegt)

Viðtöl birt upphaflega á vef Víkurfrétta

Fréttir
- Auglýsing -