spot_img
HomeNeðri deildir1. deild karlaHrunamenn báru sigurorð af Þór á Flúðum

Hrunamenn báru sigurorð af Þór á Flúðum

Hrunamenn og Þór frá Akureyri mættust í kvöld í leik í 9. umferð keppninnar í 1. deild karla. Leikið var á Flúðum. Heimamenn náðu strax forystu sem þeir héldu lengi. Þórsarar reyndu að trufla sóknarleik Hrunamanna með því að planta 4 leikmönnum inn í vítateiginn og láta einn úr sínum röðum gæta þess að Ahmad Gilbert í liði Hrunamanna fengi boltann helst ekki og kæmist alls ekki í færi til þess að skjóta á körfuna.

Hrunamenn leystu þetta með því að láta boltann ganga á milli manna þar til færi gafst til þess að skjóta 3ja stiga skoti á körfuna eða með því að keyra með boltann að körfu Þórsara og finna lausan mann þegar hjálparvörnin mætti boltamanninum. Eyþór Orri var manna duglegastur við þetta og skilaði 10 stoðsendingum í hendur sinna manna, flestum í hendur Samuels Burt sem var stigahæstur heimamanna með 28 stig. Friðrik Heiðar hitti vel í byrjun leiksins og Haukur sótti að körfunni með góðum árangri auk þess að verjast vel.

Ahmad losnaði reglulega úr gæslunni og skoraði 26 stig fyrir Hrunamenn og tók 11 fráköst. Hringur og Óðinn komu fullir sjálfstrausts í leikinn, skiluðu góðu varnarframlagi og fráköstum auk þess að skjóta óhræddir 3ja stiga skotum yfir svæðisvörn Þórsaranna. Þorkell Jónsson kom sömuleiðis grimmur inn af bekknum með baráttu.

Eftir fyrsta leikhluta var staðan 27-15 heimamönnum í vil. 2 leikhlutann vann Þór með 3ja stiga mun og þann þriðja vann Þór með 8 stiga mun. Staðan í hálfleik var 47-38.

Leikur Þórs snýst að miklu leyti um að búa til skot fyrir Arturo Rodriguez. Arturo skoraði 38 stig fyrir Þór. Í 3. leikhluta og upphafi þess 4. lék hann sérstaklega vel og leiddi áhlaup Þórs sem náði að vinna upp forskot Hrunamanna og komast yfir. Smári Jónsson átti ágætan leik fyrir Þór, rétt eins og Baldur Örn sem skoraði 10 stig og tók 17 fráköst. Hlynur Freyr var með 13 stig og 100% skotnýtingu. Hlynur fór af velli í lokafjórðungnum með 5 villur.

Varnarleikur Þórs var áhættusamur. Þótt Ahmad fengi ekki frið til að ráðast að körfunni eða skjóta boltanum að henni tókst hinum Hrunamönnum nánast alltaf að ljúka sóknunum með opnu skoti. Þórsurum til happs geiguðu mörg skotin, bæði 3ja stiga skot og skot af stuttu færi. Hrunamenn voru þolinmóðir. Þeir héldu áfram að búa til opin færi og fyrir rest höfnuðu skot þeirra ofan í körfunni og þar með var sigurinn tryggður. Lokatölur 101-94 fyrir Hrunamenn.

Í næstu umferð mæta Hrunamenn Selfyssingum á Flúðum og Þórsarar taka á móti Álftnesingum á Akureyri.

Tölfræði leiks

https://www.karfan.is/2022/11/oskar-sa-jakvaedu-hlidarnar-eftir-tap-a-fludum-nadum-ad-koma-okkur-aftur-inn-i-leikinn/
https://www.karfan.is/2022/11/oskar-sa-jakvaedu-hlidarnar-eftir-tap-a-fludum-nadum-ad-koma-okkur-aftur-inn-i-leikinn/
Fréttir
- Auglýsing -