Skráning er hafin á hið vinsæla körfuboltanámskeið á Laugarvatni fyrir sumarið 2024.
Undanfarin ár hefur fljótt selst upp á námskeiðið, skráning hófst í gær og miðað við viðtökur á fyrsta degi skráningar er ljóst að á því verður engin breyting. Einungis 34 sæti eru eftir á námskeiðið þegar þessi frétt er skrifuð.
Áhuginn á námskeiðinu er í raun með ólíkindum því 11 mánuðir eru í að það fari fram.
Námskeiðið fer fram 13.-16.júlí 2024 og er fyrir krakka fædd 2009-2013 en á þessu fjögurra daga námskeiði er gist í þrjár nætur í 2-4 manna herbergjum með fullu fæði.
Æft er tvisvar sinnum á dag auk fyrirlestra en einnig er mikið lagt upp úr skemmtanagildinu og má þar nefna kayak-ferðir, sundlaugapartý, bubblubolta, ratleik, bingó og fleira.
Mikil áhersla er lögð á gæði og jákvæða upplifun á námskeiðinu og sem fyrr munu reynslumiklir þjálfarar og leikmenn mæta og þjálfa á námskeiðinu.