spot_img
HomeFréttirFyrirkomulag Evrópukeppni yngri landsliða

Fyrirkomulag Evrópukeppni yngri landsliða

U16 ára landslið stúlkna lauk keppni á Evrópumóti á dögunum og urðu í 5. sæti í B deild keppninnar, sem er næst besti árangur U16 ára stúlknalandsliðs Íslands í sögunni.

Umræðan um árangurinn hefur því miður aðeins farið í rangar áttir að mínu mati þar sem sleppt er að segja frá að þetta sé B deild og því lítur þetta út eins og að Ísland eigi 5. besta lið Evrópu í þessum flokki en það sæti unnu Króatar sér með sigri á Póllandi í leik sem fór fram í Izmir í Tyrklandi.

Mig langar því að útskýra fyrirkomulag Evrópumóta yngri landsliða fyrir fólki svo það sé hægt að setja árangurinn í samhengi til framtíðar.

Árið 2004 var ákveðið að skipta Evrópumótinu upp í 3 deildir, A deild, B deild og C deild. Þetta á við um U20, U18 og U16 strákar og stelpur.

Í A deild eru alltaf 16 lið, í B deild eru að hámarki 24, fer eftir skráningu og restin er svo í C deild, það er þó þannig að sumar þjóðir eru ekki það stórar að þær hafi bolmagn til að taka þátt í B deild, þjóðir eins og San Marino, Monaco, Malta og fleiri. Það má að einhverju leiti kalla C deild smáþjóðakeppni eða eins og það hét í gamla dag Promotion Cup. Flestar þjóðir eiga þó ekki rétt á að vera í C deild vegna árangurs og t.d. hafa íslensk strákalandslið ekki haft rétt til að keppa þarna í um 25 ár og síðasta stelpulandsliðið var U16 árið 2015 sem vann alla leiki með að meðaltali 50 stigum.

Það að íslensku stelpurnar hafi orðið í 5. sæti í Podgorica á dögunum er mjög góður árangur á íslenskan mælikvarða, aðeins einu sinni áður hefur náðst betri árangur hjá U16 stelpum og einu sinni hjá U18 stelpum. Íslenskt stúlknalandslið hefur aldrei spilað í A deild.

Einhverjum kann að þykja þetta fúll og ferkantaður pistill en það verður að vera svo, við sem skrifum samtímasöguna þurfum að passa upp á að staðreyndir séu réttir svo þeir sem grúska í sögunni í framtíðinni séu ekki í vafa og það er einmitt kveikjan að þessum skrifum.

Fréttir
- Auglýsing -