spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaHöttur sótti sigur á Meistaravelli

Höttur sótti sigur á Meistaravelli

Höttur lagði KR í kvöld í 5. umferð Subway deildar karla, 72-83. Eftir leikinn er Höttur í 4.-6. sætinu með 6 stig líkt og Haukar og Njarðvík á meðan að KR er í 10.-11. sæti deildarinnar með 2 stig líkt og ÍR.

Fyrir leik

Fyrir leik kvöldsins höfðu heimamenn í KR fngið inn nýjan bandarískan leikmann, þar sem EC Matthews var kominn í stað Michael Mallory.

Gangur leiks

Eftir nokkuð fjörlega byrjun þar sem liðin skiptust á forystunni í nokkur skipti ná gestirnir að austan að skapa sér smá forystu. Sóknarlega var það mest megnis Obie Trotter að þakka, en hann setti 10 stig í fyrsta leikhlutanum, sem Höttur leiddi með 4 stigum eftir, 17-21. Mest kemst Höttur 12 stigum yfir undir lok fyrri hálfleiksins, en heimamenn koma þá aðeins til baka og er munurinn 6 stig þegar að liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 34-40.

Stigahæstur heimamanna í fyrri hálfleiknum var Jordan Semple með 10 stig á meðan að Obie Trotter var kominn með 13 stig fyrir Hött.

Í upphafi seinni hálfleiksins ná heimamenn í KR að keyra upp hraða leiksins og fá nokkra þrista til að detta. Þessi aukna ákefð í sóknarleik þeirra skilar þeim þó engu. Halda fengnum hlut fyrir lokaleikhlutann, 58-64. Í upphafi þess fjórða gerir KR ágætlega að koma muninum niður í 1 stig með þrist frá Þorsteini Finnbogasyni, 65-66. Höttur heldur þó forystunni áfram og er 4 stigum yfir þegar 5 mínútur eru eftir, 67-71. Gestirnir ná að læsa leiknum varnarlega á næstu mínútum, bæta eilítið við forystuna og eru 9 stigum yfir þegar 2 mínútur eru til leiksloka, 67-76. Undir lokin gera þeir svo það sem þarf til að sigla frekar öruggum 11 stiga sigur í höfn, 72-83.

Atkvæðamestir

Jordan Semple var atkvæðamestur í liði heimamanna í kvöld með 10 stig og 12 fráköst á meðan að fyrir Hött var það Timothy Guers sem dró vagninn með 16 stigum, 8 fráköstum og 5 stoðsendingum.

Hvað svo?

Bæði lið eiga leik næst eftir landsleikjahlé, KR tekur á móti grönnum sínum úr Val þann 20. nóvember, en degi seinna fær Höttur lið Stjörnunnar í heimsókn.

Tölfræði leiks

Fréttir
- Auglýsing -