spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaMikilvægur Stólasigur í baráttunni um úrslitakeppnissæti

Mikilvægur Stólasigur í baráttunni um úrslitakeppnissæti

Íslandsmeistarar Tindastóls lögðu Stjörnuna í Umhyggjuhöllinni í kvöld í 17. umferð Subway deildar karla, 71-76. Með sigrinum færist Tindastóll uppfyrir Stjörnuna í töflunni, en Stólarnir eru nú í 8. sætinu með 18 stig á meðan að Stjarnan er fyrir utan úrslitakeppnina, í 9. sætinu með 16 stig.

Fyrri leik liðanna á tímabilinu, sem fram fór fyrir áramótin í Síkinu, vann Stjarnan með sex stigum. Miðað við stöðu liðanna í deildinni og baráttu þeirra um sæti í úrslitakeppninni var því ekki aðeins leikið um sigur í kvöld, heldur einnig um að hafa innbyrðisstöðuna gegn hinu liðinu.

Leikurinn var í járnum í upphafi, en eftir fyrsta leikhluta voru það gestirnir úr Skagafirði sem leiddu, 20-22. Leikurinn er svo áfram jafn fram að lokum fyrri hálfleiks, en þegar liðin halda til búningsherbergja er munurinn aðeins eitt stig, 40-41.

Með góðum kafla í upphafi seinni hálfleiks nær Tindastóll áfram að vera skrefinu til loka þess þriðja, 52-56. Í þeim fjórða eru Stólarnir svo í bílstjórasætinu. Fara með forystu sína yfir 10 stigin í fyrsta skipti í leiknum á lokamínútunum. Stjarnan nær þó að klóra í bakkann og með laglegri körfu frá Anti Kanervo tryggja þeir að sigur Tindastóls sé innan innbyrðismarka þeirra. Niðurstaðan að lokum fimm stiga sigur Tindastóls, 71-76.

Atkvæðamestur fyrir Tindastól í kvöld var Callum Lawson með 23 stig og 7 fráköst á meðan að Júlíus Orri Ágústsson dró vagninn fyrir Stjörnuna með 13 stigum, 9 fráköstum.

Stjarnan á leik næst komandi miðvikudag 14. febrúar gegn Haukum í Ólafssal á meðan að Tindastóll leikur degi seinna fimmtudag 15. febrúar gegn Njarðvík í Ljónagryfjunni.

Tölfræði leiks

Myndasafn (Væntanlegt)

Fréttir
- Auglýsing -