Njarðvík skráði nafn sitt í pottinn fyrir undanúrlistin í VÍS-bikar kvenna með 92-72 sigri á Hamar/Þór Þorlákshöfn í kvöld. Gestirnir létu vel fyrir sér finna þrátt fyrir að leika deild neðar en Njarðvík en heimakonur reyndust of stór biti þetta kvöldið.
Tvö lið, Grindavík og Þór Akureyri, tryggðu sig áfram í VÍS bikarkeppni kvenna í gær. Í dag fóru svo seinni tveir leikirnir fram, þar sem að Njarðvík og Keflavík tryggðu sig áfram.
Njarðvíkingar leiddu 21-20 að loknum fyrsta leikhluta. Gestirnir í Þór Þ./Hamri voru sprækir í upphafi þar sem Aniya var komin með 11 stig og 3-3 í þristum. Hjá Njarðvík var Jana spræk í upphafsleikhlutanum með 9 stig.
Ljónynjur voru fljótar að slíta sig frá gestunum í upphafi annars leikhluta og komu muninum fljótt í 35-25. Selena Lott lét vel til sín taka í leikhlutanum og var með 14 stig í hálfleik og Njarðvíkingar leiddu 54-35. Hjá gestunum var Aniya með 14 stig í hálfleik og Emma Hrönn 10.
Hamar/Þór Þ. komu sterkar inn í síðari hálfleikinn og unnu þriðja leikhluta 15-18 en náðu þó ekki að ógna forystu Njarðvíkinga að neinu ráði í síðari hálfleik og lokatölur því 92-72.
Aniya Thomas var stigahæst hjá Hamri/Þór með 28 stig og 8 fráköst og næstar henni og jafnar að stigum voru Emma Hrönn Hákonardóttir, Hildur Gunnsteinsdóttir og Tijana Raca allar með 13 stig.
Selena Lott var stigahæst Njarðvíkinga með 22 stig, 7 fráköst og 5 stoðsendingar og henni næst var Emilie Hesseldal með 16 stig og 13 fráköst og Jana Falsdóttir með 17 stig.