ÍA tók í kvöld á móti Ármenningum. Bæði lið höfðu fyrir leikinn unnið 2 leiki og tapað 2 leikjum í deildinni fyrir leik kvöldsins. Eftir taplausan september var staðan sigurlaus október hjá Ármanni en bæði lið áttu það sameiginlegt að hafa tapað síðustu tveimur leikjum sínum, ÍA einum í deild og einum í bikar en Ármann tveimur í deild.
Jafnræði var með liðunum í upphafi og þegar 1 mínúta var eftir af fyrsta leikhluta og staðan var 20-21 þá er nokkuð víst að engum grunaði hvað væri að fara að gerast. Ármenningar skoruðu síðustu 8 stig fyrsta leikhluta og kláruðu svo leikinn í öðrum leikhluta sem þeir unnu 7-20. Skagamenn reyndu að koma til baka í upphafi síðari hálfleiks þegar þeir mættu til leiks með ákveðinni svæðisvörn en Ármenningar fundu svar við því og kláruðu svo leikinn auðveldlega þar sem lokatölur leiksins urðu 66-97 og sigurlausum október lokið hjá Ármanni.
Hvað varðar frammistöðu einstakra leikmanna í leiknum þá voru þeir Jalen Dupree og Gabriel Adersteg stigahæstir hjá ÍA með 16 stig hvor. Hjá Ármenningum var William Thompson fyrrum leikmaður ÍA með 20 stig og Austin Magnus Bracey með 19 stig og kom með marga mikilvæga þrista í leiknum. Innkoma Egils Jóns Agnarssonar af bekknum var glæsileg en kappinn endaði leikinn með 20 stig, 6 fráköst og 3 stoðsendingar.
Athyglisverðir punktar úr leiknum
*ÍA hitti ekki úr 3ja stiga skoti í fyrri hálfleik þrátt fyrir 13 heiðarlegar tilraunir.
*Austin Magnus Bracey skoraði 5 þrista í 9 skottilraunum í leiknum en allt lið ÍA skoraði aðeins 4 þrista í alls 31 skottilraun.
*ÍA fékk dæmdar á sig 23 villur í leiknum á móti 14 villum sem dæmdar voru á Ármenninga.
*Bekkurinn hjá Ármanni skoraði 37 stig í leiknum á móti 12 stigum af bekknum hjá ÍA.
Umfjöllun: HH
Myndir: ÍA TV